Mesta ógn mannkyns í þúsundir ára

David Attenborough segir að tíminn sé að hlaupa frá okkur.
David Attenborough segir að tíminn sé að hlaupa frá okkur. AFP

Sjón­varps­maður­inn heimsþekkti Dav­id Atten­borough seg­ir lofts­lags­breyt­ing­ar mestu ógn mann­kyns í þúsund­ir ára. Hann seg­ir þær geta leitt til hruns siðmenn­ing­ar og út­rým­ing­ar stórs hluta hins „nátt­úru­lega heims“.

Þetta sagði Atten­borough í opn­un­ar­ræðu á ráðstefnu um lofts­lags­mál sem fram fer í sam­starfi við Sam­einuðu þjóðirn­ar í Katowice í Póllandi. Fund­ur­inn er einn sá mik­il­væg­asti af þess­um toga sem fram hef­ur farið eft­ir að Par­ís­ar­samn­ing­ur­inn náðist árið 2015.

Atten­borough sagði meðal ann­ars: „Núna stönd­um við frammi fyr­ir ham­förum af manna­völd­um á heimsvísu. Okk­ar mesta ógn í þúsund­ir ára. Lofts­lags­breyt­ing­ar.“ Hann sagði að ef ekk­ert yrði að gert væri hrun siðmenn­ing­ar og hins nátt­úru­lega heims á næsta leiti.

Ráðstefn­an í Póllandi kall­ast COP24 og er Atten­borough full­trúi al­menn­ings á henni. Er hon­um ætlað að vera tengiliður al­menn­ings og full­trúa stjórn­valda sem ráðstefn­una munu sitja.

„Jarðarbú­ar hafa talað. Skila­boð þeirra eru skýr. Tím­inn er að hlaupa frá okk­ur. Þeir vilja að þið, stjórn­völd, grípið til aðgerða nú þegar,“ sagði sjón­varps­maður­inn víðfrægi.

Ant­onio Guter­res, fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, sagði í sinni ræðu í dag að lofts­lags­breyt­ing­ar væru nú þegar spurn­ing um líf eða dauða í mörg­um lönd­um heims. Hann sagði heims­byggðina langa vegu frá því að um­bylta hag­kerf­um sín­um til að draga úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda. Hann sagði ráðstefn­una til­raun til að stilla kúrs skips­ins og að á næsta ári muni fara fram önn­ur lofts­lags­ráðstefna til að ræða næstu skref.

Leiðtog­ar 29 ríkja munu ávarpa ráðstefn­una í Póllandi. Á henni er von­ast til þess að leggja loka­hönd á tækni­leg­ar út­færsl­ur á mark­miðum Par­ís­arsátt­mál­ans.

Frétt BBC.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka