Sjónvarpsmaðurinn heimsþekkti David Attenborough segir loftslagsbreytingar mestu ógn mannkyns í þúsundir ára. Hann segir þær geta leitt til hruns siðmenningar og útrýmingar stórs hluta hins „náttúrulega heims“.
Þetta sagði Attenborough í opnunarræðu á ráðstefnu um loftslagsmál sem fram fer í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar í Katowice í Póllandi. Fundurinn er einn sá mikilvægasti af þessum toga sem fram hefur farið eftir að Parísarsamningurinn náðist árið 2015.
Attenborough sagði meðal annars: „Núna stöndum við frammi fyrir hamförum af mannavöldum á heimsvísu. Okkar mesta ógn í þúsundir ára. Loftslagsbreytingar.“ Hann sagði að ef ekkert yrði að gert væri hrun siðmenningar og hins náttúrulega heims á næsta leiti.
Ráðstefnan í Póllandi kallast COP24 og er Attenborough fulltrúi almennings á henni. Er honum ætlað að vera tengiliður almennings og fulltrúa stjórnvalda sem ráðstefnuna munu sitja.
„Jarðarbúar hafa talað. Skilaboð þeirra eru skýr. Tíminn er að hlaupa frá okkur. Þeir vilja að þið, stjórnvöld, grípið til aðgerða nú þegar,“ sagði sjónvarpsmaðurinn víðfrægi.
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði í sinni ræðu í dag að loftslagsbreytingar væru nú þegar spurning um líf eða dauða í mörgum löndum heims. Hann sagði heimsbyggðina langa vegu frá því að umbylta hagkerfum sínum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hann sagði ráðstefnuna tilraun til að stilla kúrs skipsins og að á næsta ári muni fara fram önnur loftslagsráðstefna til að ræða næstu skref.
Leiðtogar 29 ríkja munu ávarpa ráðstefnuna í Póllandi. Á henni er vonast til þess að leggja lokahönd á tæknilegar útfærslur á markmiðum Parísarsáttmálans.