Unglingar sofa 6,5 tíma á nóttu

Rannsóknin sýnir að unglingar ná hvorki viðmiðunarsvefni né viðmiðum um …
Rannsóknin sýnir að unglingar ná hvorki viðmiðunarsvefni né viðmiðum um æskilegt magn hreyfingu. Getty Images/iStockphoto

Einungis um fimmtungur 15 ára unglinga ná átta tíma viðmiðunarsvefni á nóttu að meðaltali og sofa framhaldsskólanemar í fjölbrautakerfi að jafnaði lengur en nemendur í bekkjarkerfi. Þá styttist svefntími unglinga um hálfa klukkustund milli 15 og 17 ára aldur að meðaltali.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum rannsóknahóps í íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, að því er segir í fréttatilkynningu.

Rannsóknin sem nefnist „Heilsuhegðun ungra Íslendinga“ hefur einnig varpað ljósi á hreyfingu ungmenna, en aðeins helmingur 15 ára einstaklinga nær viðmiðum um æskilega hreyfingu á viku sem eru sex tímar á viku.

Jafnframt kemur fram að einstaklingar á þessum aldri fara almennt seint að sofa og sofa í sex og hálfan klukkutíma á nóttu að meðaltali. Þá ná einungis 23% stúlkna og 20% drengja viðmiðunarsvefni, sem eru átta klukkutímar. Þegar hópurinn nær 17 ára aldri styttist svefntíminn um 24 mínútur.

Að meðaltali dregst um 13% úr hreyfingu að meðaltali milli 15 og 17 ára aldurs, en helmingur 17 ára ungmenna stunda íþróttir eða hreyfa sig reglulega.

Rannsóknin er framhald á rannsókninni „Lífsstíll 7 og 9 ára íslenskra barna – íhlutunarrannsókn til bættrar heilsu“ sem fram fór á árunum 2006 til 2008. Um 500 nemendur sem fæddir eru 1999 hafa tekið þátt.

Skoðuð hefur verið staða og langtímabreytingar á holdarfari, hreyfingu, svefni, þreki, andlegum þáttum og lifnaðarháttum íslenskra ungmenna, fyrst við 7 og 9 ára aldur og síðan við 15 ára og 17 ára aldur hjá þátttökuhópnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert