„Það að hafa aðgang að gögnum veitir ekki rétt til að nota þau,“ segir Jón Stephenson von Tetzchner, frumkvöðull og fjárfestir, í viðtali við Tímamót, sérblað Morgunblaðsins, sem kemur út í dag. Jón gagnrýnir netrisana Google og Facebook harðlega í viðtalinu fyrir meðferð þeirra á upplýsingum um notendur sína.
Oft sé spurt hvað sé að því að veita aðgang að upplýsingum hafi menn ekkert að fela og þetta séu bara auglýsingar, en það sé einfaldlega rugl að stilla dæminu þannig upp: „Það er búið að vopnvæða upplýsingar. Hægt er að greina hvern og einn og nota upplýsingarnar til að senda auglýsingar og pólitísk skilaboð. Nigel Farage segir sjálfur að án Facebook hefði ekkert orðið af Brexit og Trump og hann ætti að vita það. Facebook og Google skutu ekki, en þau seldu byssuna. Við þurfum ekki á þessu að halda til að fá hlutina ókeypis á netinu.“
Jón hefur smíðað vafrann Vivaldi, sem kominn er með eina milljón notendur. Hann leggur mikið upp úr því að fara vel með upplýsingar. „Við höfum allar upplýsingar, en við notum þær ekki nema fyrir okkar skýrslur,“ segir hann. „Við misnotum þær ekki, seljum hvorki né geymum. Við viljum ekki hafa upplýsingar um hvað fólk gerir. Stjórnvöld ættu að sjá til þess að gögn séu ekki misnotuð.“
Viðtalið í heild sinni er í blaðinu Tímamót, sérblaði Morgunblaðsins í samvinnu við New York Times.