Snjallheimili og sjálfsiglandi skip

Kona mundar FLIR VR-gleraugun á CES í Las Vegas.
Kona mundar FLIR VR-gleraugun á CES í Las Vegas. AFP

„Það hefur hægst á þróun snjallsíma og snjalltækja og það er örugglega engin bylting í slíkum tækjum á árinu,“ segir Guðmundur Jóhannsson, upplýsingafulltrúi Símans og áhugamaður um tækni og nýjungar. mbl.is fékk hann til að fara yfir helstu vendingar í tækniheiminum á síðasta ári og því næsta. „Þróunin verður að ég held nær öll í hugbúnaði, gervigreind, algrímum og vélrænni tækni.“

Erlendis er mikið fjallað um að árið 2019 sé ár 5G-væðingarinnar en að sögn Guðmundar mun sú tækni ekki ná til íslenskra neytenda á árinu. „Bæði á Íslandi og erlendis verður þjarkavæðing enn meiri og við munum heyra meira af henni,“ segir Guðmundur og vísar til þess að tölvukerfi komi í stað fólks þar sem unnið er með mikið af sömu upplýsingar í tölvum, t.d. í villuleiðréttingum og gagnainnslætti. „Þjarkatæknin getur gert eitthvað á sekúndum sem tæki marga starfsmenn nokkra daga,“ segir Guðmundur.

Guðmundur Jóhannsson, upplýsingafulltrúi Símans.
Guðmundur Jóhannsson, upplýsingafulltrúi Símans. Ljósmynd/Aðsend

Guðmundur bendir á að reiknigeta borðtölva og fartölva sé ekki lengur að aukast líkt og áður og snjalltækin nálgist sama vegg. „Þróun á örgjörvum snýst núna um að ná minni hita þannig að hún eyði ekki eins miklu rafmagni,“ segir Guðmundur og bætir við að í nýjasta síma Google, Pixel 3, sé myndavélin sú sama og í fyrri gerð símans, Pixel 2, en myndgæði í nýja símanum þó umtalsvert betri en í þeim fyrri. „Allt sem þeir gera nýtt er með tölvugreind og tölvukerfum en ekki stærri linsu,“ segir Guðmundur.

Tengdum tækjum fjölgar en 2019 ekki ár snjallheimilisins

Tengdum tækjum á íslenskum heimilum mun fjölga umtalsvert á árinu. „Mörg heimili eru farin að stíga sín fyrstu skref, með Alexa- eða Google-hátalara, eða nokkrar ljósaperur sem dæmi,“ segir Guðmundur en hann telur að 2019 verði þó ekki árið sem snjallheimilið slær í gegn, heldur þar sem venjuleg heimili byrja að horfa til tækninnar.

„Það sem stendur uppbyggingunni helst fyrir þrifum byrjar og endar á raddstýringu og við þurfum alltaf að tala ensku. Ég er með lása, perur og fjarstýringar hjá mér og þarf alltaf að tala ensku,“ segir Guðmundur og játar að það geti verið þreytandi.

Einhverjir greinendur segja að 2019 sé árið sem fjarstýringin deyr og að raddstýringin taki alveg yfir, sama hversu rétt það verður. Ríkisstjórn Íslands setti fé til verndunar og til þess að koma íslensku í stafrænan heim með stofnun Almannaróms. Það er bara að vona að þeir fái þann tíma og fjármuni sem þarf til að koma íslenskunni þarna inn í,“ segir Guðmundur.

Facebook átti erfitt ár 2018.
Facebook átti erfitt ár 2018. AFP

Hvert hneykslismálið rak annað hjá Facebook

Þegar talið berst að stóru tæknifyrirtækjunum segir Guðmundur að síðasta ár hafi verið það versta í sögu Facebook þar sem hvert hneykslismálið rak annað. „Ég hugsa að árið 2019 verði árið þar sem notendum fækkar á Facebook. Ekki af því að þeim gengur illa að fjölga notendum í vanþróuðum ríkjum þar sem vöxturinn hefur verið síðustu ár, heldur af því að notendur á Vesturlöndum munu í auknum mæli fara eitthvað annað,“ segir hann.

„Instagram er náttúrulega í eigu Facebook og þeir hafa tekið við þeim notendum sem hætt hafa á Facebook, aðallega yngra fólki. Stofnandi Instagram hætti hjá fyrirtækinu á síðasta ári og það virðist vera að Facebook reyni að troða of miklu af Facebook-efni inn á Instagram sem í hans huga hefur neikvæð áhrif á ánægju notenda af forritinu,“ segir hann.

Guðmundur segir að Google þurfi að taka á sínum málum enda hafi síðasta ár einnig reynst þeim erfitt um margt. 20 þúsund starfsmenn gengu út vegna fregna um hvernig fyrirtækið tók á kynferðislegri áreitni þar sem þekktum starfsmönnum var greitt fyrir að láta sig hverfa eftir ásakanir um kynferðisofbeldi. Þá hafi Kína-verkefni Google valdið miklum titringi þar sem stjórnendur fyrirtækisins tala pólitískt og óljóst um áform sín, sem og notkun Google-hugbúnaðs í hernaðarlegum tilgangi. Google hefur þó síðan ákveðið að láta ekki tölvukerfi og gervigreind í té í hernaðarlegum tilgangi fyrr en settar hafa verið siðareglur um notkun á slíkri tækni.

Apple gekk vel á síðasta ári á öllum sviðum að …
Apple gekk vel á síðasta ári á öllum sviðum að sögn Guðmundar. AFP

Gott ár hjá Apple

„Apple átti frábært ár 2018 á öllum sviðum, gagnvart notendum, kauphöll og inn á við. Þeir lentu ekki í neinum hneykslismálum eða gagnalekum enda er afstaða þeirra til gagnaverndar að vinna ekki með persónuupplýsingar notenda sinna,“ segir Guðmundur en bætir við að þó hafi hægst á sölu hjá fyrirtækinu og þeir hafi lent í vandræðum fyrir að nota ekki nýjustu kynslóðir örgjörva og íhluta.

„Spotify fór í kauphöllina á síðasta ári og það hefur gengið ágætlega,“ segir Guðmundur en bætir við að hörð samkeppni sé vestanhafs við Apple Music. Spotify noti gervigreind meira en Apple Music til að ýta efni að hlustendum. „Dropbox hefur verið í vandræðum, eðlilega því allir risarnir; Microsoft, Google og Apple, eru með staðkvæmdavöru sem þeir bjóða upp á og þegar varan er hluti af stýrikerfi símans eða tölvunnar er erfitt að keppa við það.“

„Snapchat halda áfram að valda vonbrigðum, Facebook og Instagram eru að taka allt sem Snapchat gerir vel og gera betur. Notkun á Snapchat hefur minnkað, margir nota Instagram og Facebook Stories sem er speglun á þeirri virkni sem Snapchat bjó til.“

Frumgerð af sjálfkeyrandi bifreið bandaríska fyrirtækisins Uber.
Frumgerð af sjálfkeyrandi bifreið bandaríska fyrirtækisins Uber. AFP

Sjálfsiglandi skip áður en við sjáum sjálfkeyrandi bíla

Hann segir Uber hafa átt hræðilegt ár. „Þeir eru búnir að gera margt með sjálfkeyrandi bíla. Bíll frá þeim var fyrsti bíllinn til að keyra á manneskju sem lést, öryggisbílstjórinn sem átti að grípa inn í var í símanum að horfa á The Voice,“ segir hann en nefnir að Vamo, dótturfélag Alphabet og hluti af Google-samsteypunni, sé komið lengst í þróun sjálfkeyrandi bíla. „Þeir eru að opna þjónustu eins og Uber í úthverfum Phoenix í Arizona þar sem sjálfkeyrandi bílar sækja farþega og virkar eins og Uber eða Lyft. „Þar verður öryggisbílstjóri en þeirra takmark er að hann þurfi ekki,“ segir Guðmundur en bendir á að líklega verði öryggisbílstjórar lengur undir stýri en fyrirtækið helst kysi, ekki vegna öryggisástæðna heldur vegna þess að mannfólki þyki óþægilegt að fara upp í mannlausan bíl.

„Ég hugsa að við sjáum sjálfsiglandi skip áður en við sjáum sjálfkeyrandi bíla. Rolls Royce og Intel eru byrjaði að prófa það í Noregi með fraktskipum. 70 prósent allra slysa hjá farmskipum eru af mannavöldum en ekki náttúru eða annarra ástæðna. Ef hægt er að láta tæknina sigla er hægt að verja mannslíf, farm og skipin. Ef skipin eru sjálfsiglandi þarf enga í áhöfn og það minnkar pláss sem fer undir vistarverur. Þá er hægt að auka gámapláss og allir græða,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert