Áberandi munur er á snævi þöktu og auðu landi þessa dagana líkt og sést á gervitunglamynd þar sem sjá má jökulsár fléttast um sanda Suðausturlands, breytast í sífellu og bera mikið efni til hafs.
Þetta sést greinilega á LANDSAT-8-gervitunglamynd frá NASA og bandarísku jarðfræðistofnuninni (USGS) af Skeiðarársandi, Öræfajökli, Jökulsárlóni og nágrenni sem tekin var í gær.
Eldfjallafræði- og náttúruvárhópur Háskóla Íslands birti myndina á Facebook-síðu sinni og segir Ingibjörg Jónsdóttir, dósent við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, að sérstaklega sé verið að fylgjast með Öræfajökli og hugsanlegum breytingum á yfirborði jökla vegna jarðhita eða eldvirkni undir jöklunum.
Ingibjörg segir að um sérstakt vöktunarátak sé að ræða, sem sé sérstakt þar sem rauntímagervitunglagögnum sé yfirleitt ekki safnað yfir myrkustu vetrarmánuðina þegar sól er lágt á lofti. „Þrátt fyrir vandamál sem ýmsar bandarískar stofnanir kljást við undanfarið vegna fjárveitinga, eða öllu heldur skorts á þeim, hefur vefur jarðfræðistofnunarinnar veitt rauntímagervitunglagögn daglega,“ segir Ingibjörg.
Myndin er unnin út frá nýjum gögnum úr LANDSAT-8-gervitunglinu, en á henni er áberandi munur á snævi þöktu landi annars vegar, en auðu hins vegar. „Jökulárnar sjást einnig fléttast um Skeiðarársand, en þær breytast stöðugt og bera fram mikið efni, sem jöklarnir hafa mulið. Sjá má áhrif jökulánna langt út á sjó, og þetta veldur einnig breytingum á ströndinni,“ segir Ingibjörg.
Margt má lesa út úr gervitunglamyndunum, svo sem þróun gróðurfars til lengri tíma, og segir Ingibjörg að sífellt meiri gróður megi sjá á Skeiðarársandi með hverju árinu. „Þar hafa LANDSAT-gervitunglin reynst notadrjúg, því fyrsta slíka gervitunglinu var skotið á loft árið 1972 og því er til samfelld myndasería í tæpa hálfa öld,“ segir Ingibjörg. Þá sýnir myndin einnig að Jökulárslón, sem hóf að myndast í byrjun 20. aldar, fari jafnframt stækkandi með hverju ári.