Rannsóknir sýna fram á mikilvægi ástríðu þegar kemur að því að skara fram úr. Þegar við skoðuðum nokkra af fremstu einstaklingum í heiminum á sínu sviði fundum við út að bak við gífurlega mikla vinnu/þjálfun á sviðinu voru nokkrir þættir sem er hægt að kalla sálfræðilega hæfileika (e. resources).
Þættirnir voru ástríða, þrautseigja (e. grit) og gróskuhugarfar (e. growth mindset). Þar fyrir utan var góður leiðbeinandi, eða „mentor“, mikilvægur.
Ástríðan hefur áhrif á stefnu okkar í lífinu, það er að segja á hvaða sviðum hún liggur og hvert við viljum stefna. Í þessu samhengi getur maður sagt að við sem foreldrar, kennarar, þjálfarar, afar og ömmur eigum að kveikja elda í stað þess að fylla á körfur.
Þrautseigjan er síðan lykilþáttur við að kalla fram þá miklu vinnu/þjálfun sem þarf til að verða framúrskarandi.
Í því sambandi er mikilvægt að þú sem einstaklingur búir yfir hugarfari sem einkennist af grósku, það er að þú hafir sterka trú á því að þú getir haft áhrif á þína eigin þróun. Ef einstaklingur með gróskuhugarfar er spurður hvort hann sé góður að spila á gítar, þá svarar hann: „Ekki enn þá en ég ætla mér það.“ Eða hann er spurður hvað hann viti um nóbelsskáldið Halldór Kiljan Laxness? „Ekki mikið enn þá en ég ætla að fræðast meira um hann.“
Gott dæmi um framúrskarandi einstakling er Charles Darwin. Darwin er talinn vera einn af mikilvægustu vísindamönnum í heiminum, sem með þróunarkenningunni kollvarpaði öllum hugmyndum manna um þróun. Það eru kannski færri sem vita að Darwin kunni ekki vel við sig í skóla en hann hafði ríka ástríðu og áhuga á fugla- og dýraríkinu frá unga aldri. Hann átti til dæmis stórt safn af bjöllum. Hann elskaði að veiða á stöng og að fara á smáfuglaveiðar. Róbert, pabbi Darwins, vildi að hann yrði læknir eða prestur en Darwin fylgdi hjartanu og vann allt sitt líf með náttúrufræði. Hans mikla ástríða fyrir og reynsla af náttúruskoðun er talin einn af lykilþáttum fyrir þróun á hans kenningu.
Annar framúrskarandi einstaklingur er söngkonan Björk. Hún er annað dæmi um mikilvægi þess að fylgja hjartanu. Ástríða Bjarkar innan tónlistar og hennar mikla reynsla frá barnsaldri hefur gert hana að þeim tónlistarmanni sem hún er. Darwin og Björk eru gott dæmi um einstaklinga sem hafa náð frábærum árangri á sínu sviði. Það má segja að þetta séu einstaklingar sem gerðu hluti á sinn hátt.
Okkar rannsókn á tengslum ástríðu og þrautseigju sýnir sterkt samband á milli þessara þátta sem styrkir sýnina á að ástríða sé mikilvæg fyrir þrautseigju að öfugt. Í þessu samhengi er brýnt að hugsa: Ég vil, ég skal og ég get.
Virkjum okkar ástríðu, kveikjum elda.
Hermundur Sigmundsson er prófessor í lífeðlislegri sálfræði við Háskólann í Þrándheimi og Háskólann í Reykjavík og skrifar pistla um vísindi og samfélag. Pistillinn birtist fyrst í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 5. janúar 2019.