Breyting á klukkunni úr sumartíma yfir í réttan tíma miðað við hnattstöðu Íslands, svokallaðan vetrartíma, hefur verið áberandi í umræðunni eftir að opnað var fyrir umsagnir á samráðsgátt Stjórnarráðsins um greinargerðina „Staðartími á Íslandi — stöðumat og tillögur“ en alls hafa 1.187 umsagnir borist á tveimur vikum. Skoðanir eru skiptar en fljótt á litið virðast mjög margir hlynntir því að seinka klukkunni um eina klukkustund.
Meðal þess sem upp hefur komið í umræðunni er áhrif breytinga á klukkunni á svefngæði og sú staðhæfing að sólarbirtan sé blárri við sólris en sólarlag.
Þannig segir Erna Sif Arnardóttir, forstöðunáttúrufræðingur og forstöðumaður svefnrannsókna á Landspítalanum, í viðtali við Læknablaðið að á morgnana sé bláa birtan ríkjandi og á kvöldin er birtan á rauða svæði litrófsins. „Það er bláa ljósið á morgnana sem stillir okkur af og þannig getur maður stjórnað líkamsklukkunni með því að flýta henni eða seinka henni,“ segir Erna meðal annars.
Ari Ólafsson, dósent í eðlisfræði við Háskóla Íslands, svarar þessari staðhæfingu, þ.e. hvort morgunbirtan sé virkilega blárri en kvöldbirtan, í nýju svari á Vísindavef Háskóla Íslands.
Stutta svarið, að hans sögn, er: „Já, stundum. Það finnast aðstæður sem gefa morgunbirtunni meiri bláma en kvöldbirtunni, en þær eru langt frá því að vera algildar. Fyrirbærið tengist mengun í neðstu loftlögum og ræðst af hegðunarmynstri okkar mannanna og virkni náttúrunnar til að eyða sóðaskapnum okkar.“
Ari segir að til að komast að svarinu sé rétt að skoða hvaða fyrirbæri koma að litbrigðum í ljósi sólar. Í því samhengi talar hann um ljósdreifingu, það er þegar ójöfnur í rafsvörunareiginleikum breyta stefnu ljóseinda, í sumum tilfellum á tilviljanakenndan hátt. Þá segir hann að ljósísog skipti einnig máli, sérstaklega í tengslum við mengun.
„Ísog allra sameindagerðanna sem mynda ómengað andrúmsloftið er hverfandi á sýnilega bilinu, nema ísog vatns bæði á dropaformi og gasformi. Vatnið deyfir rauða enda litrófsins meira en þann bláa. Því má segja að sólarljósið bláni við að fara í gegnum vatnsgufu eða vatnsdropa.“
Ljósdreifingarnar sem Ari útskýrir í svarinu, það er Rayleigh-dreifing og Mie-dreifing, sem og ljósbrot, geta ekki valdið meiri bláma að morgni en kvöldi. En hitastig og efnainnihald í neðstu loftlögum getur verið annað að morgni en kvöldi.
Þannig getur morgunbirtan verið blárri en kvöldbirtan þar sem myndast geta aðstæður sem gefa morgunbirtunni meiri bláma en kvöldbirtunni.
Hér má lesa svar Ara í heild sinni.