Tveir þriðju af jöklabreiðu Himalaja-fjallanna gætu bráðnað fyrir árið 2100 ef fram fer sem horfir. Þetta kemur fram í nýrri umfangsmikilli rannsókn Alþjóðamiðstöðvar ítarlegra fjallarannsókna á áhrifum loftslagsbreytinga á Hindu Kush-svæðið í Himalaja-fjöllunum (KHK). Rannsóknin er afrakstur vinnu yfir 350 vísinda- og fræðimanna og nær yfir um fimm ára tímabil.
Rannsóknin rennir stoðum undir aðvaranir vísindamanna undanfarið um að loftslagsbreytingar valdi því að jöklar í Himalaja-fjöllum bráðni nú með ógnvekjandi hraða. Bráðnunin getur haft bein áhrif á um tvo milljarða manna sem búsettir eru á svæðinu, sem nær frá Afganistan til Búrma. Svæðið er oft nefnt „þriðji póllinn“ en þar er að finna mesta magn af ís á jörðinni fyrir utan Suðurskautslandið og Norðurpólinn.
Jöklarnir á KHK-svæðinu eru mikilvæg uppspretta vatnsbirgða fyrir 250 milljónir manna sem eru búsettir á svæðinu, auk 1,65 milljarða sem treysta á stærðarinnar fljót, svo sem Ganges-fljótið í Indlandi, Gulafljótið í Kína og Mekong-ána í Suðaustur-Asíu sem renna undan breiðunni. Áhrif bráðnunarinnar geta birst í formi mengunar og öfgakennds veðurfars, svo dæmi séu nefnd.
„Þetta er loftslagskrísan sem enginn heyrði af,“ segir Philippus Wester, sem fór fyrir rannsókninni, en hann segir niðurstöðurnar jafnframt vera mikið áfall.
Í rannsókninni segir að þrátt fyrir „metnaðarfull markmið“ Parísarsamkomulagsins um að halda hlýnun jarðar innan 1,5 gráða marka muni það samt sem áður hafa þau áhrif að þriðjungur jöklanna í Himalaja-fjöllunum mun bráðna.
Samningurinn, sem undirritaður var í desember 2015 af 195 þjóðum, miðar að því að koma í veg fyrir að hitastig jarðar hækki um meira en 2 gráður og helst ekki meira en um 1,5 gráður miðað við meðalhitastig jarðar fyrir iðnvæðingu. Það dugar hins vegar ekki til hvað varðar KHK-svæðið. Þó svo að 1,5 gráða markmiðinu yrði náð þýðir það að hitastig á svæðinu hækkar um 2,1 gráðu.
Jöklarnir, sem mynduðust fyrir 70 milljónum ára, eru afar viðkvæmir fyrir hitabreytingum og frá áttunda áratug síðustu aldar hafa fimmtán prósent jökla á svæðinu bráðnað. Afleiðingarnar birtast meðal annars í stórhættulegum stöðuvötnum sem geta valdið ofanflóði sem steypist niður fjallshlíðarnar af ógnvænlegum krafti.
Stöðuvötnunum fjölgar stöðugt og sýna gervihnattamyndir að frá 1990 hefur þeim fjölgað úr 3.350 í 4.260.
Gríðarlega fjármuni þarf til að sporna við bráðnun jökla í Himalaja-fjöllunum. Í rannsókninni er áætlað að 4,6 milljarða dollara þurfi árlega til að aðlaga svæðið að loftslagsbreytingum og að fjárhæðin aukist eftir árið 2030, í 7,8 milljarða dollara árlega.