Fækkun er að eiga sér stað hjá yfir 40% allra skordýrategunda í heiminum. Þriðjungur þeirra er í útrýmingarhættu. Ef fram heldur sem horfir gætu vistkerfi heimsins hrunið með gríðarlega alvarlegum afleiðingum, að því er fram kemur í nýrri rannsókn sem breska blaðið Guardian greinir frá. Fækkun skordýra er átta sinnum hraðari en fækkun í stofnum spendýra, fugla og skriðdýra. Í heildina fækkar skordýrum heimsins nú um 2,5% á hverju ári. Með sama áframhaldi verða þau horfin með öllu á innan við hundrað árum.
Niðurstöður rannsóknarinnar voru nýverið birtar í vísindatímaritinu Biological Conservation og eru unnar í samstarfi kínverskra og ástralskra vísindamanna.
Skordýr eru nauðsynleg fyrir viðhald allra vistkerfa jarðar. Þau eru uppistaða í fæðu margra annarra dýrategunda, eru frjóberar miklir og sjá um að endurvinna og búa til ýmis þörf næringarefni.
Rannsóknir hafa sýnt að hrun hefur orðið hjá skordýrategundum í Þýskalandi og Púertó Ríkó og sterkar vísbendingar eru um að slíkt hið sama sé að eiga sér stað á heimsvísu. „Ef við ekki breytum aðferðum okkar við að framleiða mat munu skordýr feta slóðina að útrýmingu á fáum áratugum,“ stendur í skýrslunni. Það er niðurstaða höfunda hennar að stórtækum landbúnaði, aðallega gríðarlegri notkun skordýraeiturs, sé aðallega um að kenna. Þá hafa borgvæðing og loftslagsbreytingar einnig sitt að segja.
„Ef ekki verður hægt að stöðva fækkun skordýra mun það hafa hamfarakenndar afleiðingar fyrir vistkerfi jarðar sem og afkomu mannkyns alls,“ hefur Guardian eftir Francisco Sánchez-Bayo sem starfar við Háskólann í Sydney. Hann segir það vera áfall að skordýrum hafi fækkað um 2,5% árlega undanfarna 2-3 áratugi.
Fuglar, skriðdýr og fiskar eru meðal þeirra sem fyrst finna fyrir áhrifum fækkunarinnar. „Ef þessi fæða er tekin af þessum dýrum þá svelta þau í hel.“
Sé horft til einstakra skordýrategunda virðist sem fiðrildum og mölflugum hafi fækkað einna mest. Sem dæmi fækkaði um 58% í öllum tegundum fiðrilda á ræktuðu landi á Englandi á árunum 2000-2009. Þá hafa býflugur einnig orðið fyrir miklum áföllum.
Um samantektarrannsókn er að ræða sem byggir á 73 rannsóknum á skordýrum víða um heim. Flestar rannsóknirnar voru gerðar í Evrópu og Bandaríkjunum en einnig var rýnt í rannsóknir frá Ástralíu, Kína, Brasilíu og Suður-Afríku. Töluvert vantar upp á rannsóknir á öðrum svæðum í heiminum til að fá fullkomna heildarmynd af ástandinu.
Sánchez-Bayo bendir á að sífellt meira land sé rutt til landbúnaðar og það hafi m.a. gríðarleg áhrif á búsvæði skordýra jafnt sem spendýra. Hann segir að skordýraeitur sem komu á markaðinn fyrir um 20 árum hafi reynst sérlega skæð. Þau séu notuð í miklu magni og oft og hverfi ekki úr vistkerfunum að notkun lokinni. „Þau sótthreinsa jarðveginn, drepa allar lirfur.“
Þessi eitur hafa langt í frá staðbundin áhrif og sem dæmi hefur hrun orðið í stofnum skordýra á friðuðum svæðum í Þýskalandi, þar sem slíkum efnum er aldrei beitt. „Stórtækur landbúnaður er það sem er að drepa vistkerfin,“ segir Sánchez-Bayo.