Hægt er að nota eldfjöll sem tæki til þess að skilja betur þær loftlagsbreytingar sem eru í gangi í dag. Þetta er á meðal þess sem fram kom í erindi sem Hera Guðlaugsdóttir, loftslagssérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, flutti á ráðstefnu sem fram fór í Háskóla Íslands í gær á vegum verkfræði- og náttúruvísindasviðs skólans.
Hera sagði að ástæðan fyrir þessu væri meðal annars sú að þegar efni úr gosmekkinum færi langt upp í heiðhvolfið yrði orkubúskapur jarðarinnar fyrir eins konar truflun af völdum agnanna. Þessi truflun hefði síðan áhrif á víxlverkun innan loftlagskerfisins. Þar ætti hún við andrúmsloft, hafið og hafís. Þetta samspil réði því að miklu leyti hvernig veðurfarið væri hverju sinni. Þar sem samspil þessa kerfis væri ekki vel þekkt þá kæmu eldgos að mjög góðum notum til þess að skilja það betur.
Brennisteinssambönd bærust úr gosmekkinum, út í andrúmsloftið og upp í heiðhvolfið. Þær væru þeim eiginleikum gæddar að kasta út sólarljósi sem leiddi til kólnandi yfirborðs jarðar. Þessir sömu sameindir gleyptu einnig í sig varmageislun frá yfirborði jarðar. Þetta skapaði hlýtt lag í efri lögum andrúmsloftsins. Þessi hitastigstruflun í lofthjípnum gæti haft áhrif á þrýstings og vindakerfi í honum sem yrðu þess valdandi að ákveðin veðurkerfi yrði meira ríkjandi en önnur. Dæmi um það væri Norður-Atlantshafsuppsveiflan.
Þetta veðrakerfi væri hvað algengasta veðrakerfið í Norður-Atlantshafi. Þekkt væri að stór eldgos yrðu þess valdandi að þessi sveifla þvingaðist í jákvæðan fasa sem væri vegna styrkingar í háloftunum. Þessi jákvæði fasi ylli hlýrra og rakara lofti yfir Evrópu og á austurströnd Bandaríkjanna. Neikvæður fasi þessarar sveiflu ylli kaldara og þurrara loftslagi á sömu svæðum.
Efni úr eldgosum dreifðu sér hnattrænt og gætu þannig haft hnattrænar afleiðingar. Meðal annars með auknum hafís, sumarkólnun og vetrarhlýnun fyrstu tvö árin eftir gos. Þessi loftlagssvörun virtist koma aftur árum og jafnvel áratugum eftir gos sem væri vegna þess að hafið færi þá að spila inn í sem undirstrikaði að það ætti sér stað ákveðið samspil innan loftlagskerfisins.