Vísindaskáldskapur verði að veruleika

Geimferju var skotið á loft í morgun, sem, ef gengur …
Geimferju var skotið á loft í morgun, sem, ef gengur að óskum, ætti að geta flutt fólk í geiminn. AFP

Geimferju SpaceX, sem getur flutt fólk, var skotið á loft snemma í morgun í Flórída. Allt gekk vel og hún á að komast á áfangastað á morgun, sem er Alþjóðlega geimstöðin, sem ferðast á braut um jörðu.

Ferjan er nú á leiðinni til geimstöðvarinnar og á eftir að ráðast hvernig henni gengur að tengja sig við geimstöðina þegar hún kemur að henni, sem ætti að vera um kl. 11 sunnudagsmorgun. Svo þarf hún að ferðast aftur til jarðar, sem hún gerir næsta föstudag.

„Við viljum að sögurnar úr vísindaskáldskap verði ekki vísindaskáldskapur að eilífu. Við viljum að þær rætist einhvern daginn,“ sagði Elon Musk, stofnandi og eigandi SpaceX. Crew Dragon ferjunni sem skotið var upp núna er ætlað að flytja fólk einn daginn.

Eldflaugin er mannlaus frumgerð, en miðað við árangurinn er ekki útilokað að gefið verði leyfi fyrir mönnuðum förum síðar á þessu ári.

Elon Musk talar um að þetta sé sennilega fyrsta skrefið í átt að geimferðum fyrir áhugasama viðskiptavini. Góður árangur í dag veit þannig á góðar horfur í þeim efnum.

Bandaríkin hafa ekki getað sent bandarísk mönnuð geimför út í geim síðan 2011. Þau hafa verið með rússneskar eldflaugar á leigu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert