Laus við HIV-veiru eftir stofnfrumuígræðslu

Maðurinn fór í lyfjameðferð gegn krabbameininu auk þess sem stofnfrumur …
Maðurinn fór í lyfjameðferð gegn krabbameininu auk þess sem stofnfrumur úr einstaklingi sem hafði sýnt náttúrulegt ónæmi fyrir HIV-veirunni voru græddar í hann. Mynd úr safni. STR

HIV-veiran greinist nú ekki lengur í breskum manni sem var með veiruna, eftir að stofnfrumur voru græddar í hann. Fjallað er um málið í vísindatímaritinu Nature, en aðgerðin er önnur sinnar tegundar sem gerð hefur verið.

Maðurinn, sem var í krabbameinsmeðferð, hefur nú verið í sótthvörfum í 18 mánuði og þarf ekki lengur að taka HIV-lyf.

Vísindamenn segja þó enn of snemmt að segja til um það hvort maðurinn sé „læknaður“ af HIV-veirunni.

BBC segir sérfræðinga þá vara við því að þessi aðferð sé ekki nothæf fyrir heilbrigða einstaklinga með HIV-veiruna, en hún kunni þó að leiða til þess að lækning finnist.

Tíu ár síðan Berlínar-sjúklingurinn sigraðist á HIV

Maðurinn, sem er Lundúnabúi, greindist með HIV-veiruna árið 2003. Hann greindist svo með eitlakrabbamein árið 2012. Hann fór í lyfjameðferð gegn krabbameininu auk þess sem stofnfrumur úr einstaklingi sem hafði sýnt náttúrulegt ónæmi fyrir HIV-veirunni voru græddar í hann. Það leiddi til þess maðurinn er nú í sóttarhléi frá bæði krabbameininu og HIV-veirunni.

Vísindamenn frá University College London, Imperial College London, Cambridge og Oxford-háskólunum tóku þátt í rannsókninni, en þetta er í annað skipti sem þessi meðferð hefur leitt til sótthvarfa frá HIV-veirunni.

Bæði Lundúna- og Berlínarsjúklingarnir fengu stofnfrumur frá gjöfum sem eru …
Bæði Lundúna- og Berlínarsjúklingarnir fengu stofnfrumur frá gjöfum sem eru ónæmir fyrir HIV-veirunni. AFP

Tíu ár eru nú frá því að sjúklingur í Berlín fékk merggjöf frá gjafa sem var með náttúrlegt ónæmi fyrir veirunni. Maðurinn, Tim Brown, var sagður vera sá fyrsti til að sigrast á HIV-veirunni og alnæmi, en hann fór í gegnum merggjöf í tvígang auk þess að fara geislameðferð – sem er mun harðari meðferð en sú sem beitt var á Lundúnasjúklingin.

Ekki lengur frávik

„Með því að koma öðrum sjúklingi í sótthvörf með sambærilegri aðferð höfum við sýnt fram á að Berlínar-sjúklingurinn var ekki frávik og að þetta er raunverulega meðferðarnálgun sem útrýmdi HIV-veirunni hjá þessum tveimur einstaklingum,“ hefur BBC eftir Ravindra Gupta, prófessor frá UCL, sem fór fyrir rannsókninni.

Prófessor Eduardo Olavarria, frá Imperial College í London, sagði árangur stofnfrumugræðslunnar bjóða von í langri leit að lækningu við HIV-veirunni og alnæmi.

Stökkbreyting hindrar veiruna 

CCR5 er algengasti viðtaki HIV-1-veirunnar sem kemst inn í frumurnar, en það er sá stofn veirunnar sem er hvað algengastur. Örfáir einstaklingar hafa hins vegar náttúrulegt ónæmi fyrir HIV-veirunni og þeir eru með tvær stökkbreyttar gerðir af CCR5-viðtakanum. Það þýðir að veiran kemst ekki inn í þær frumur líkamans sem hún vanalega sýkir.

Bæði Lundúna- og Berlínarsjúklingarnir fengu stofnfrumur frá gjöfum sem hafa þessa ákveðnu stökkbreytingu sem gerir þá ónæma fyrir veirunni.

Vísindamenn vara þó við því að varafrumuforði líkamans kunni að geyma HIV-veirur sem legið geta í dvala árum saman. Þeir telja engu að síður mögulegt, nú þegar staðfest hefur verið að Berlínar-sjúklingurinn var ekki afbrigði, að nota megi genameðferð gegn CCR5-viðtakanum í einstaklingum með HIV-veiruna.

„Ef við öðlumst aukin skilning á því af hverju aðferðin virkar fyrir suma sjúklinga en ekki aðra komumst við nær því takmarki að lækna HIV-veiruna,“ segir prófessor Graham Cooke við Imperial College London og bætti við að niðurstöðurnar „lofuðu góðu“.

„Eins og er felst hins vegar of mikil áhætta í þessari meðferð til að hætta á að nota hana á sjúklinga sem eru heilbrigðir að öðru leyti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert