Fjórðungur ótímabærra dauðsfalla vegna mengunar

Mengun og matarsóun efnameiri ríkja er sögð leiða til hungurs, …
Mengun og matarsóun efnameiri ríkja er sögð leiða til hungurs, fátæktar og sjúkdóma annars staðar. AFP

Fjórðung allra ótímabærra dauðsfalla og sjúkdóma um heim allan má rekja til mengunar af mannavöldum og þess skaða sem jörðin hefur orðið fyrir. Þetta eru niðurstöður svartrar skýrslu sem kynnt var í dag á umhverfisþingi Sameinuðu þjóðanna, sem nú stendur yfir í Naíróbí í Kenýa.

Vara vísindamenn við að banvænn útblástur, eiturefni í drykkjarvatni og sífellt hraðara niðurbrot vistkerfa sem eru nauðsynleg lifibrauði milljóna manna um heim allan séu að baki faraldri sem mun hafa skaðleg áhrif á hagkerfi heimsins.

Skýrslan er sögð vera ein yfirgripsmesta og nákvæmasta skýrsla á stöðu umhverfismála sem unnin hefur verið á vegum Sameinuðu þjóðanna sl. fimm ár. Í skýrslunni, sem birt var í dag, vara vísindamenn við að skaðinn sem jörðin hefur orðið fyrir sé orðinn það mikill, að heilsu jarðarbúa stafi í auknum mæli hætta af verði ekki gripið samstundis til aðgerða.

Sýklalyfjaónæmi ein helsta dánarorsök 2050

250 vísindamenn og sérfræðingar frá yfir 70 löndum komu að gerð skýrslunnar. Segja skýrsluhöfundar að annaðhvort verði gefið kröftuglega í varðandi umhverfisvernd eða milljónir ótímabærra dauðsfalla verði á næstu áratugum í borgum og jafnvel heilu héruðum Asíu, Mið-Austurlanda og Afríku.

„Vísindin tala sínu máli. Heilsa og velferð mannkyns tengjast stöðu …
„Vísindin tala sínu máli. Heilsa og velferð mannkyns tengjast stöðu umhverfismála með beinum hætti,“ sagði Joyce Msuya, settur framkvæmdastjóri umhverfissviðs Sameinuðu þjóðanna. AFP

Mengunarvaldar í ferskvatnskerfum muni þá valda því að sýklalyfjaónæmi verði orðin ein helsta dánarorsökin strax árið 2050, auk þess sem truflun á innkirtlastarfsemi muni hafa neikvæð áhrif á frjósemi bæði karla og kvenna, sem og taugaþroska barna.

Benda skýrsluhöfundar enn fremur á að gjáin milli ríkra þjóða og fátækari breikki nú sífellt vegna taumlausrar neyslu. Þannig leiði mengun og matarsóun efnameiri ríkja til hungurs, fátæktar og sjúkdóma annars staðar.

Skortir skilning á heilsufarsáhrifum mengunar

Meirihluti ríkja heims virðist nú vera þeirrar skoðunar að framtíð jarðar stafi ógn af loftslagsbreytingum. Minni skilning segja vísindamennirnir virðist hins vegar vera á heilsufarsáhrifum mengunar, skógarhöggs og fjöldaframleiðslu matvæla.

„Vísindin tala sínu máli. Heilsa og velferð mannkyns tengjast stöðu umhverfismála með beinum hætti,“ sagði Joyce Msuya, settur framkvæmdastjóri umhverfissviðs Sameinuðu þjóðanna. „Þessi skýrsla sýnir framtíðarhorfur mannkyns. Við erum stödd á krossgötum. Höldum við áfram á núverandi leið eða snúum við yfir á sjálfbærari leið? Þetta er valið sem stjórnmálaleiðtogar standa nú frammi fyrir.“

Benda vísindamenn í skýrslunni á að tæknin, vísindin og fjármagnið fyrir sjálfbærari valkostum sé til staðar. Enn skorti hins vegar á nægan stuðning frá almenningi, fyrirtækjum og stjórnmálaleiðtogum sem haldi dauðahaldi í úreltar framleiðsluaðferðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert