Klínískar rannsóknir hafnar hjá Alvotech

Hátæknisetur Alvotech í Vatnsmýrinni í vor. Mynd úr safni.
Hátæknisetur Alvotech í Vatnsmýrinni í vor. Mynd úr safni. mbl.is/RAX

Líftæknifyrirtækið Alvotech hefur hafið klínískar rannsóknir á sínu fyrsta lyfi. Um er að ræða líftæknilyfshliðstæðu lyfsins Humira, sem hefur reynst árangursríkt  við meðferð á ýmsum sjálfsofnæmissjúkdómum, eins og liðagigt og psoriasis. Fram kemur í fréttatilkynningu Alvotech að Humira sé söluhæsta lyf heims og hafi selst fyrir um 20 milljarða Bandaríkjadala á ári (eða um 2.500 milljarða króna).

Um 400 þátttakendur taka þátt í rannsókn Alvotech og er hún unnin á 30 stöðum vítt og breitt um Evrópu.

Segir í tilkynningunni að ríflega 100 háskólamenntaðir vísindamenn verði ráðnir til viðbótar á Íslandi og Alvotech stefni á að verði leiðandi á heimsvísu í þróun og framleiðslu líftæknilyfja á næstu árum

„Nú eru átta ár síðan við hófum undirbúning á þróun og framleiðslu líftæknilyfja og aðeins um þrjú ár síðan hátæknisetur Alvotech opnaði í Vatnsmýrinni. Fjölmargir mikilvægir áfangar hafa náðst á þessum tíma. Markmið okkar er að hátæknisetur fyrirtækisins verði leiðandi á heimsvísu í þróun og framleiðslu líftæknilyfja og að aðgengi sjúklinga að hágæðalyfjum aukist enn frekar,“ er haft eftir Róbert Wessman, stofnanda og stjórnarformanni Alvotech, í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert