Stærðfræðingurinn Karen Uhlenbeck, prófessor við Háskólann í Texas, var í dag sæmd norsku Abel-verðlaununum, fyrst kvenna.
Norska vísindaakademían veitir verðlaunin en í rökstuðningi hennar segir að Uhlenbeck hafi með starfi sínu haft grundvallaráhrif á stærðfræðigreiningu og stærðfræðilega eðlisfræði og ekki síst rúmfræðigreiningu, þá undirgrein stærðfræðinnar sem notar diffurrúmfræði til að leysa afleiðujöfnur.
Abel-verðlaunin voru sett á fót árið 2003 og eru nokkurs konar ígildi Nóbelsverðlauna stærðfræðinnar. Þau eru veitt stærðfræðingum sem þykja með ævistarfi sínu hafa lagt sitt af mörkum til fræðanna með nýjum uppgötvunum. Þau eru nefnd eftir norska stærðfræðingnum Niels Henrik Abel.
Verðlaunaafhending verður haldin í Ósló 21. maí og mun Haraldur Noregskonungur veita þau. Uhlebeck hlýtur að launum 6 milljónir norskra króna, um 82 milljónir íslenskra, en í samtali við New York Times segist hún ekki hafa ákveðið hvað hún hyggist gera við peninginn.
Meðal eldri Abel-verðlaunahafa eru Andrew J. Wiles, sem sannaði síðustu setningu Fermats, og John F. Nash sem er helst minnst fyrir framlag sitt til leikjafræði, og uppgötvun Nash-jafnvægisins en fyrir það hlaut hann Nóbelsverðlaun í hagfræði.