Cambridge Analytica flaggað fyrr en talið var

Er einn starfsmaður Facebook, sem búsettur er í Bandaríkjunum, sagður …
Er einn starfsmaður Facebook, sem búsettur er í Bandaríkjunum, sagður hafa varað fyrirtækið við gagnasöfnuninni í september 2015, en forsvarsmenn Facebook hafa haldið því fram að þeir hafi fyrst uppgötvað í desember það ár. AFP

Starfsfólk samfélagsmiðilsins Facebook lýsti yfir áhyggjum af gagnasöfnun fyrirtækisins Cambridge Analytica þremur mánuðum fyrr en áður var talið. BBC segir upplýsingar um þetta að finna í bandarískum dómsskjölum.

Er einn starfsmaður Facebook, sem búsettur er í Bandaríkjunum, sagður hafa varað fyrirtækið við gagnasöfnuninni í september 2015, en forsvarsmenn Facebook hafa haldið því fram að þeir hafi fyrst uppgötvað í desember það ár að Cambridge Analytica væri að nýta persónuupplýsingar Facebook-notenda.

Forsvarsmenn Facebook fullyrða hins vegar að ábending starfsmannsins frá því í september tengist allt öðru og óskyldu málið.

Damian Collins, formaður þingnefndar sem fer með menninga-, fjölmiðla- og stafræn mál, sagði á Twitter að fréttirnar bendi hins vegar til þess að Facebook hafi „ítrekað blekkt“ þingnefndina. Collins hefur áður gagnrýnt Mark Zuckerberg, stofnanda Facebook, fyrir að mæta ekki í yfirheyrslu nefndarinnar um hneykslismál Cambridge Analytica.

Samkvæmt dómsskjölunum varaði einn starfsmanna Facebook hins vegar fyrirtækið við hegðun Cambridge Analytica og ræddi málið við samstarfsmenn sína.  Ekki er hins vegar sýnilegt um hvað samræðurnar snérust þar sem búið er að skyggja yfir hluta textans í dómskjalinu.

Guardian greindi frá því í desember 2015 að Cambridge Analytica hefði nýtt sér persónuupplýsingar  milljóna manna sem sóttar voru í gegnum app með spurningaleik sem hannað var af vísindamanninum  Dr. Aleksandr Kogan og fyrirtæki hans GSR.

Upplýsingarnar voru svo notaðar til að láta mismunandi stjórnmálaauglýsingar birtast  notendum. Facebook sætti harðri gagnrýni þegar málið var opinberað og var sektað um 500.000 pund af breskum yfirvöldum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka