Mikilvægi menningar

Katrín Halldóra Sigurðardóttir og Björgvin Franz Gíslason í hlutverkum sínum …
Katrín Halldóra Sigurðardóttir og Björgvin Franz Gíslason í hlutverkum sínum í söngleiknum Ellý.

Mamma mín, hún Stella, hafði oft sagt við mig að ég yrði að sjá sýninguna Ellý, að hún væri frábær. Ég hugsaði hún Ellý söng falleg lög en ekki alveg mín músík. Mín músík hefur í gegnum tíðina verið meira lög sungin af Bubba, Bjartmari, Nýdanskri, Todmobile, Gusgus og Eivöru. En eftir tónleika hjá okkar frábæra listamanni Bubba Morthens núna í febrúar í Bæjarbíói var ég ákveðinn að ég yrði að sjá sýninguna með Ellý. Bubbi söng nokkur af sínum nýju lögum og sagan af einu þeirra gerði það að verkum að ég vildi sjá sýninguna.

Kristinn Magnússon

Þannig var að Bubbi fór á sýninguna Ellý og heillaðist af söngkonunni Katrínu Halldóru. Hann spurði hana hvort hún vildi syngja inn á nýju plötuna hans sem kemur út á vormánuðum. Hún sagði já, en hafnaði fyrstu tveimur lögunum sem hann hafði samið fyrir hana. Það var fyrst eftir að hann hafði samið þriðja lagið, sem hún sagði já. Þessi saga gerði útslagið, sýninguna Ellý varð ég að sjá.

Rannsóknir sýna að grunnþættir í heilastarfsemi einstaklinga tengjast gráa og hvíta efni heilans. Það má kalla gráa efnið tölvu heilans og hvíta efnið leiðslurnar í tölvunni. Gráa efnið tengist fjölda taugafrumna og þeirra tengingum. Það minnkar stöðugt frá 10 ára aldri. Hvíta efnið samanstendur af knippum af taugaþráðum sem eru einangruð með fitulagi sem flytja upplýsingar milli gráu svæða heilans - einangrunin gerir það að verkum að taugaboð geti borist hraðar. Eitt af þeim atriðum sem eru mikilvæg til að viðhalda gráa og hvíta efni heilans er að viðhalda sterkum tengslum við vini og fjölskyldu. Rannsóknir Paul Gilberts hafa einnig sýnt fram á mikilvægi góðrar samveru, vingjarnleika og samtals sem hefur allt jákvæð áhrif á okkar hormónastarfsemi. Það að upplifa jákvæðni og góðvild styrkir ónæmiskerfið og má segja að sé vítamín fyrir sálina. Þar kemur listin, músíkin og menningin inn, sem hefur mikilvægt hlutverk fyrir vellíðan fólks.

Ég fór í Borgarleikhúsið 8. mars og sá sýninguna Ellý í troðfullu leikhúsi. Ég varð heillaður af sýningunni, frábær leikur, falleg lög og einstaklega góður andi var á sýningunni. Hvað skýrir það að yfir 100.000 manns hafa séð sýninguna? Fyrir mér eru það nokkrir þættir sem eru mikilvægir fyrir velgengni sýningarinnar.

1. Sagan um Ellý heillar okkur. Okkar fyrsta dægurlaga-atvinnusöngkona. Ung kona er að keppa að því að fá að nota sína miklu hæfileika sem söngkona. Hennar líf einkennist af stöðugri baráttu og erfiðu vali í sambandi við hvernig hún á að forgangsraða í sínu lífi. Minnir mann á baráttu kvenna í aldanna rófi allt frá Guðrúnu Ósvífursdóttur í Laxdælu sem ekki fékk sömu tækifæri og Kjartan til að blómstra og nota sína hæfileika. Enn þá eru konur þessa lands og annarra landa að berjast fyrir réttmætum tækifærum.

2. Lögin sem Ellý söng lifa í þjóðarsálinni og hafa mikil áhrif á fólk.

3. Katrín Halldóra er sannarlega stjarna sýningarinnar og má segja að hafi slegið í gegn sem söngkona í þessari sýningu. Það að Bubbi hafi heillast af hennar sönghæfileikum skilur maður eftir að hafa séð sýninguna. Framtíð „Kötu“ er björt.

Þannig að óhætt er að segja að sýningin kom af stað auknu flæði oxýtósins sem lýsir sér í vellíðan og samkennd.

Lifi menningin.


Her­mund­ur Sig­munds­son er pró­fess­or í lífeðlis­legri sál­fræði við Há­skól­ann í Þránd­heimi og Há­skól­ann í Reykja­vík og skrif­ar pistla um vís­indi og sam­fé­lag. Pist­ill­inn birt­ist fyrst í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins 23. mars 2019.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert