Lífslíkur fólks með briskrabbamein aukast

Einstaklingar sem greinast með krabbamein í brisi lifa fimm sinnum …
Einstaklingar sem greinast með krabbamein í brisi lifa fimm sinnum lengur með nýrri lækningaaðferð. mbl.is/ÞÖK

Einstaklingar sem greinast með krabbamein í brisi lifa fimm sinnum lengur með nýrri lækningaaðferð. Þeir geta búist við að lifa að minnsta kosti fimm ár eftir greiningu eða læknast alfarið. Áður fyrr lifði um 1% einstaklinga í fimm ár eftir greiningu en flestir lifðu eingöngu í eitt ár með þeim lækningaaðferðum sem hafa verið notaðar. Krabbamein í brisi hefur löngum verið skæðasta krabbameinið og þótt svara illa meðferð. Þetta kemur fram í the Telegraph.      

Á síðustu sjö árum hafa læknar á The Mayo Clinic í Minnesota í Bandaríkjunum rannsakað nýja lækningaaðferð á einstaklingum með krabbamein í brisi. Hún felst einkum í því að veita sjúklingum bæði lyfja- og geislameðferð áður en meinið er fjarlægt með skurðaðgerð. Áður fyrr var þeim einstaklingum með krabbamein í brisi sem hafði dreift sér meðal annars í nærliggjandi vefi ekki boðið að gangast undir skurðaðgerð því talið var ógerningur að fjarlægja meinið.

194 einstaklingar með krabbamein í brisi tóku þátt í rannsókninni sem tók sjö ár. Fyrir rannsóknina voru lífslíkur þeirra taldar eitt til eitt og hálft ár. Um 90% þeirra voru á lífi á innan við fimm árum síðar og meðallífslíkur þeirra hækkuðu upp í 4,9 ár. Margir þeirra eru enn á lífi.

Hins vegar leiddi rannsóknin í ljós að ef einstaklingar fengu bæði lyfja- og geislameðferð áður en krabbameinið var fjarlægt og gert var við vefina í kring voru lífslíkur mun betri. Eftir því sem fólk fór í fleiri lyfja- og geislameðferðir því meiri líkur voru á bata. 

Velti meðferðinni fyrir sér eftir dauða föður síns

Faðir læknisins Mark Truty greindist með krabbamein í brisi og fékk hefðbundna meðferð við meininu á sínum tíma. Hann lést eftir um það bil ár frá greiningu. „Ég staldraði við og velti þessu fyrir mér. Í dag erum við með miklu betri lyfja- og geislameðferðir. Hvers vegna getum við ekki gert þetta öðruvísi? Ef við setjum þetta allt saman hljótum við að geta fengið betri niðurstöðu? Við þurfum bara að setja þetta í rétta röð,” segir Truty. Úr varð þessi rannsókn sem Truty er forsprakkinn að. 

„Í áratugi hefur það verið dauðadómur að greinast með krabbamein í brisi þar til nýlega. Það var það líka en núna ætlum við að breyta því,“ segir Truty.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert