Öll drykkja auki líkur á heilablóðfalli

Lengi hefur verið vitað að óhófleg neysla áfengis hefur skaðleg …
Lengi hefur verið vitað að óhófleg neysla áfengis hefur skaðleg áhrif á heilsu. AFP

Áfengisdrykkja, jafnvel þó hún sé í hófi, veldur hækkun blóðþrýstings og eykur líkur á heilablóðfalli. Þetta sýna niðurstöður nýrrar rannsóknar sem birtar eru í tímaritinu Lancet og skjóta skökku við niðurstöður eldri rannsókna sem hafa sýnt að einn til tveir áfengir drykkir á dag geti haft góð heilsufarsleg áhrif.

Greint er frá því á vef BBC að breskir og kínverskir vísindamenn hafi fylgst með drykkjuvenjum 500 þúsund Kínverja yfir tíu ára tímabil.

Segja þeir að niðurstöður rannsóknarinnar eigi við alla íbúa heimsins og að bein áhrif áfengisneyslu hafi aldrei verið rannsökuð með jafn árangursríkum hætti. Ljóst sé að allir ættu að draga úr neyslu áfengis. 

Lengi hefur verið vitað að óhófleg neysla áfengis hefur skaðleg áhrif á heilsu og eykur líkur á heilablóðfalli, en hingað til hefur því verið haldið fram að hófleg áfengisneysla geti verið heilsusamleg. 

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar eykur drykkja eins til tveggja áfengra drykkja á dag líkurnar á heilablóðfalli um 10 til 15%, en drykkja fjögurra drykkja daglega eykur þær um 35%. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu engin merki þess að hófleg drykkja gæti haft heilsusamleg áhrif.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert