Birta fyrstu ljósmynd af svartholi

Djúpmynd af stórum geislabaug utan um Messier 87.
Djúpmynd af stórum geislabaug utan um Messier 87. Chris Mihos (Case Western Reserve-háskóli)/ESO

Fyrsta ljósmynd mannkynsins af svartholi verður birt opinberlega á vefsíðu ESO kl. 13 að íslenskum tíma. Um er að ræða mynd af risasvartholi í miðju vetrarbrautar sem kallast Messier 87, en hún er sú stærsta í „nágrenni“ jarðarinnar, 55 miljón ljósár í burtu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ESO, Stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli. 

Svartholið er það stærsta í nágrenni jarðarinnar í geimnum og vegur á við 6,5 milljarða sóla og er 40 milljarðar kílómetra í þvermál. Það tæki geimfar á borð við Voyager, hraðfleygasta hlut sem menn hafa smíðað, 74 ár að ferðast þá vegalengd.

Á ljósmyndinni sést skugginn sem svartholið varpar á gasskífu sem umlykur það, en myndin er afrakstur vinnu meira en 200 vísindamanna um heim allan sem unnu að smíði Sjóndeildarsjónaukans. Hann er settur saman úr átta samtengdum útvarpssjónaukum um allan heim svo úr fæst sjónauki á borð við jörðina, og birtist ljósmyndin ða 100 ára afmæli fyrstu tilraunarinnar sem staðfesti almennu afstæðiskenningu Einsteins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert