Mun hraðari bráðnun en áður talið

Jökull í Andes-fjöllunum í Ekvador.
Jökull í Andes-fjöllunum í Ekvador. AFP

Jöklar jarðar eru að bráðna mun hraðar en vísindamenn töldu fyrir aðeins nokkrum árum. Í nýrri rannsókn, sem birt er í vísindatímaritinu Nature, kemur fram að jöklarnir tapi 369 milljörðum tonna af snjó og ís á hverju ári. 

Í umfjöllun Time um rannsóknina segir að niðurstaða vísindamannanna sé sú að jöklarnir minnki nú mun hraðar en að hópur vísindamanna reiknaði út árið 2013. Þeir minnki fimm sinnum hraðar en þeir gerðu á sjöunda áratug síðustu aldar. Þessi hröðun er rakin til loftslagsbreytinga og áhrifin eru þau að meira ferskvatn fer til sjávar en áður var talið. 

Ef litið er til síðustu þrjátíu ára má sjá, að sögn aðalhöfundar rannsóknarinnar, að jöklar um nánast allan heim hófu að minnka á sama tíma. „Það er skýr loftslagsbreyting ef þú skoðar stóru myndina,“ segir Michael Zemp hjá háskólanum í Zurich.

Þeir jöklar sem hraðast bráðna eru í Mið-Evrópu, á Kákasus-svæðinu, í vesturhluta Kanada,  mörgum ríkjum Bandaríkjanna, Á Nýja-Sjálandi og í nágrenni við hitabeltin. Jöklar á þessum svæðum tapa meira en 1% af massa sínum á hverju ári, segir í niðurstöðum rannsóknarinnar í Nature. Með þessu áframhaldi munu jöklar á þessum stöðum ekki „lifa af“ til loka aldarinnar, segir Zemp í viðtali við Time.

Í Ölpunum einum og sér eru um 4.000 jöklar sem eru forðabúr vatns fyrir milljónir manna. Talið er að þessir jöklar muni minnnka um 90% fyrir aldarlok.

Jöklar í Pategóníu í Chile hafa hopað hratt síðustu tvö …
Jöklar í Pategóníu í Chile hafa hopað hratt síðustu tvö árin. AFP

Zemp og samstarfsfélagar notuðu myndir, m.a. gervitunglamyndir, af 19 þúsund jöklum við rannsóknina og er hún því umfangsmeiri en fyrri rannsóknir um sama efni.

Er það m.a. niðurstaðan að jöklar í suðvestanverðri Asíu séu þeir einu sem eru ekki að minnka. Skýringin felst í staðbundnu veðurfari þar um slóðir.

Vísindamenn hafa lengi vitað og bent á að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu að valda bráðnun jökla á heimskautasvæðum. En í þessari nýju rannsókn kemur fram að vandinn er meiri og að áhrif bráðnunar jökla á sjávaryfirborð eru meiri en áður var talið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert