Kraft­mestu geim­flaug heims skotið á loft

Áhorfendur fylgjast spenntir með þegar Falcon Heavy, kraftmestu geimflaug heims, …
Áhorfendur fylgjast spenntir með þegar Falcon Heavy, kraftmestu geimflaug heims, var skotið á loft í Flórída í kvöld. AFP

Kraft­mestu geim­flaug heims, Falcon Hea­vy, sem er í eigu einka­fyr­ir­tæk­is­ins SpaceX, var skotið á loft í kvöld. Fresta þurfti skotinu í gær vegna veðurs en allt gekk samkvæmt áætlun í kvöld.

Þetta er í annað sinn sem Falcon Heavy er skotið á loft. Jómfrúarferðin var í febrúar í fyrra en þá var sport­bíll for­stjór­ans, Elons Musk, af gerðinni Tesla Roadster, inn­an­borðs. Við stýrið var gína klædd í geimbúning sem hefur frá skotinu gengið undir nafninu Stjörnumaðurinn. 

Falcon Hea­vy er 70 metr­ar á hæð og er hönnuð til að bera um 64 tonn eða álíka þunga og full­hlaðin farþegaþota. Hún var í fyrstu hönnuð með það í huga að flytja fólk á tunglið eða til Mars en áhersl­ur verk­efn­is­ins breytt­ust og verður hlut­verk flaug­ar­inn­ar fyrst og fremst það að flytja búnað út í geim, að sögn Musks. 

Búnaðurinn sem flaugin flytur núna er öllu gagnlegri en Stjörnumaðurinn, nefnilega Arabsat-6A samskiptagervihnöttur sem verður notaður til að dreifa sjónvarpsútsendingum, útvarpssendingum, símasambandi og neti í Mið-Austurlöndum, Evrópu og Afríku.

Allt gekk eins og í sögu þegar Falcon Heavy var …
Allt gekk eins og í sögu þegar Falcon Heavy var skotið á loft. AFP

Líkt og í fyrra skiptið var flauginni skotið frá Kennedy geimstöðinni Cape Cana­ver­al í Flórída og brutust út mikil fagnaðarlæti þegar 27 vél­ar flaug­ar­inn­ar voru ræst­ar og hún hóf sig svo á loft á sama skot­palli og fyrsta flaug NASA til tungls­ins gerði fyr­ir um fjór­um ára­tug­um. 

Stuttu eftir skotið lentu fyrstu tvær eldflaugarnar á svipuðum stað og þeim var skotið á loft og sú þriðja, sem flaug hærra og lengra, lenti á fljótandi lendingarpalli í Atlantshafi undan ströndum Flórída. Allt gekk því eins og í sögu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert