Öll höfum við orðið vör við hina gífurlegu fjölgun ferðamanna á Íslandi síðustu árin. Við erum að fá í heimsókn til Íslands um og yfir tvær milljónir ferðamanna.
Hvað er það sem gerir það að verkum að svo margir koma hingað? Er það vegna þess að Ísland er ódýr ferðamannastaður? Nei, ekki lengur! Hvað er það þá? Jú, okkar stórkostlega náttúra. Fjöllin, firðirnir, fossarnir, Þingvellir, hvalirnir, vötnin, heita vatnið og Strokkur. Ferðamönnum finnst einnig mikið til koma okkar frábæru sundlauga sem eru um allar byggðir landsins. Hver með sinn sjarma og oft frábæra staðsetningu. Góður árangur íþróttalandsliða hefur efalaust haft sitt að segja og þættir eins og Ófærð eiga líka sinn þátt í að markaðssetja landið og náttúruna. Ófáir Norðmenn hafa talað við mig um þáttinn, bæði landslag og leikara.
Þar að auki er maturinn góður og veitingahús eru vel sótt allt árið. Það má nefna flotta staði sem hafa sérhæft sig í að matreiða okkar frábæra fisk, eins og veitingahúsið Messann. Eða önnur veitingahús eins og Kopar sem bjóða upp á okkar bragðgóða lambakjöt, „fjallalambið“, fisk og annað gómsæti.
Orka, vatn og matur má segja að verði mikilvægustu auðlindir framtíðarinnar. Þess vegna er þróun á landbúnaði og ræktun gífurlega mikilvæg fyrir framtíðina. Mikilvægt er að við pössum vel upp á okkar stórkostlegu náttúru og auðlindir, bæði til hafs og lands. Það að geta boðið upp á „fjallalamb“ sem elst upp úti í íslenskri náttúru hlýtur að vera eitthvað sem við getum markaðssett á heimsvísu sem gæðavöru, eins og Norðmenn markaðssetja sinn lax um allan heim.
Ef skoðaðar eru kenningar um nám og taugavísindi (eins og kenningu Edelmans) þá er lykilatriði að þróun færni og kunnáttu þarfnast mikillar þjálfunar og reynslu til að skapa taugafræðileg net, nokkurs konar „snaga“. Á unga aldri er mikilvægt að börnin fái fjölbreytt áreiti og öðlist þannig og skapi marga litla snaga með yfirborðskenndri þekkingu, sem geta síðan orðið stórir og sterkir fyrir dýpri þekkingu og kunnáttu. Við þurfum að efla náttúrufræðiáhuga hjá börnum og unglingum. Það þarf að byrja skipulagða innleiðingu og kennslu strax í leikskólum landsins. Þar fengju börnin fræðslu í gegnum til dæmis 10 klukkustunda dagskrá þar sem farið væri yfir bæði dýr, fugla, skordýr, orma, fiska, hafið, landið og gróður. Markmiðið væri kennsla þar sem börnin fengju að kynnast hverju viðfangsefni á sem bestan og árangursríkan hátt með því að snerta og prófa.
Síðan þyrfti markvisst átak til að fá fleiri nemendur til að velja nám sem tengist þessu gífurlega mikilvæga sviði fyrir framtíðina, þar sem umhverfismál og sjálfbærni eru í brennidepli úti um allan heim.
Norðmenn hafa virkilega tekið á þessum málum með stóreflingu Umhverfisháskólans í Ås og fjölgun háskólafaga í öðrum háskólum sem tengjast umhverfi, umhverfisvernd og sjálfbærni.
Eflum náttúrufræðikunnáttu – tendrum loga.
Hermundur Sigmundsson er prófessor í lífeðlislegri sálfræði við Háskólann í Þrándheimi og Háskólann í Reykjavík og skrifar pistla um vísindi og samfélag. Pistillinn birtist fyrst í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 9. desember 2018.