Um 70% framhaldsskólanema hér á landi sofa of lítið og margir ósofnir framhaldsskólanemar nýta sér orkudrykki til að halda virkni í gegnum daginn. Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum nýrrar rannsóknar á svefnvenjum framhaldsskólanema.
Margrét Lilja Guðmundsdóttir sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu, sem sá um framkvæmd rannsóknarinnar sem gerð var í fyrra, fór yfir niðurstöðurnar þegar Gulleplið 2019, hvatningarverðlaun Heilsueflandi framhaldsskóla fyrir framúrskarandi heilsueflingarstarf, var afhent síðastliðinn föstudag. Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson afhenti Fjölbrautaskólanum í Breiðholti verðlaunin og ítrekaði hann mikilvægi svefns til að halda góðri heilsu og efla vellíðan meðal ungs fólks sem og annarra Íslendinga og sagði sögur af góðráðum svefnleysis fyrr á árum og sló á létta strengi, að því er fram kemur í frétt á heimasíðu embættis landlæknis.
Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur meðal annars fram að 78% nema sem sofa í sjö klukkustundir eða minna drekka fjóra orkudrykki eða meira á dag. Dr. Erla Björnsdóttir, sem hefur sérhæft sig í svefnrannsóknum, hélt stutt erindi um mikilvægi svefns fyrir góða andlega og líkamlega heilsu, frammistöðu og vellíðan.
Hún sagði frá því að mikil notkun orkudrykkja geri það að verkum að líkaminn fái gerviorku sem leiði til þess að hann fær ekki þá hvíld sem hann kallar eftir með þreytueinkennum. Líkaminn þurfi undirbúning í formi svefns fyrir hvern dag og hefur það áhrif á frammistöðu, sé þeim undirbúningi ekki sinnt.
Í rannsókninni var einnig tekið tillit til samspils svefns og andlegrar heilsu. Þar kemur meðal annars fram að þeir sem sofa í sjö klukkustundir eða minna meta líkamlega heilsu sína sæmilega í 66% og lélega í 17% tilfella. Ef skoðuð er andleg heilsa þá segja 88% þeirra sem sofa um sjö klukkustundir eða minna hana vera sæmilega og 66% segja hana vera lélega. Eftir því sem framhaldsskólanemar sofa minna, því lélegri meta þeir andlega heilsu sína en einnig meta 19% þeirra sem sofa meira en 9 klukkustundir á sólarhring, andlega heilsu sína lélega.
Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur einnig fram að þeir sem horfa á kvikmyndir, þætti eða myndbönd í fjórar klukkustundir eða lengur á dag, sofa minna en þeir sem horfa minna en fjórar klukkustundir á dag.
Sama á við um þá sem spila tölvuleiki á netinu en þar má sjá að þeir sem sofa um átta klukkustundir á dag eyða í 15% tilfella fjórum klukkustundum eða meira í tölvuleiki. Þeir sem sofa minna eyða talsvert meiri tíma í tölvuleiki á netinu. Þeir sem eru á samfélagsmiðlum í fjórar klukkustundir eða meira á dag, sofa minna en þeir sem eyða færri klukkustundum á miðlunum og má í því sambandi nefna að þeir sem sofa um sex klukkustundir eða minna, verja í 42% tilfella fjórum klukkustundum eða meira í samfélagsmiðla.
Að sama skapi hefur skjánotkun rétt fyrir svefninn truflandi áhrif og mælti Erla fyrir góðum ráðum til að fá góðan svefn og auka þar með vellíðan. „Svefn er nauðsynlegur til að undirbúa sál og líkama fyrir góða virkni næsta dag og ekki sé hægt að bæta upp svefnleysi yfir virka daga með því að sofa meira um helgar og miklar vökur um helgar geti orðið til þess að þreyta framhaldsskólanema sé áberandi fyrri hluta skólavikunnar,“ kom meðal annars fram í erindi Erlu.
Fjölbrautaskólinn í Breiðholti hlaut Gulleplið 2019 vegna markvissrar áætlunar til að bæta svefn og svefnvenjur nemenda sinna. Í skólanum hefur markviss fræðsla átt sér stað fyrir nemendur um mikilvægi svefns fyrir ungt fólk. Einnig eru gerðar tilraunir með upphaf skólabyrjunar og skólinn býður upp á sveigjanleika fyrir þá nemendur sem á þurfa að halda.
Í frétt á vef landlæknis kemur fram að skólinn hafi unnið markvisst að því að taka upp þá þætti sem taldir eru skipta hvað mestu máli til að bæta svefnvenjur nemenda. Áhersla er lögð á svefn og svefnvenjur í foreldrasamstarfi, að nemendum sé gefinn kostur á að hefja skóladaginn síðar í samráði við námsráðgjafa og tekur þannig tillit til einstaklingsbundinna þarfa. Þá er nemendum gefið frí í fyrsta tíma eftir skólaball þannig að þau nái átta tíma svefn þrátt fyrir skólaskemmtun.