Endurlífguðu svínsheila eftir slátrun

Rannsóknin var unnin á 32 svínsheilum sem fengnir voru í …
Rannsóknin var unnin á 32 svínsheilum sem fengnir voru í sláturhúsi. Mynd úr safni.

Bandarískum vísindamönnum hefur tekist að endurlífga hluta svínsheila fjórum klukkustundum eftir að dýrunum var slátrað. BBC segir niðurstöður rannsóknarinnar sem birtar voru í vísindatímaritinu Nature skara eld að rökræðum um skilin milli lífs og dauða, auk þess að veita nýja leið til að rannsaka sjúkdóma á borð við Alzheimer.

Rannsóknin sýndi fram á að hægt var að stöðva dauða heilafrumanna og jafnvel endurvekja vissar tengingar í heilunum. Engin merki bárust hins vegar frá heilanum sem gáfu til kynna skilning eða meðvitund. Niðurstöðurnar draga engu að síður í efa þá hugmynd að innan nokkurra mínútna frá því að blóð hættir að streyma til heilans þá eigi sér stað óafturkræf hnignun.

Rannsóknin var gerð á 32 svínsheilum sem fengnir voru í sláturhúsi og sem fjórum klukkutímum síðar voru tengdir kerfi sem teymi vísindamanna við Yale háskóla hafði búið til. Kerfið dældi með takti sem líkti eftir æðaslætti sérstaklega útbúnum vökva um heilana. Vökvinn innihélt gerviblóð sem bar með sér súrefni og lyf sem geta hægt á eða snúið við dauða heilafruma.

Var þessum vökva dælt um svínsheilana í sex klukkustundir, en við það dró úr dauða heilafruma, endurnýjun slagæða átti sér stað, auk þess sem sýnt var fram á nokkra heilavirkni. Þannig fundu vísindamennirnir m.a. virkni í taugatengingum, auk þess sem 10 tímum eftir að svínin voru afhöfðuð, þá sýndi heilinn venjulegt viðbragð við lyfjunum og nýtti sama magn súrefnis með saman hætti og lifandi heili.

BBC segir heilalínurit þó ekki hafa sýnt nein merki um meðvitund eða skynnæmi og því hafi  í grundvallaratriðum verið um dauða heila að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert