Vilja Ísland í forystu um minni losun kinroks

Ísjaki við Ilulisat á Grænlandi. Þegar kinrokið, sem er fíngert …
Ísjaki við Ilulisat á Grænlandi. Þegar kinrokið, sem er fíngert kolefnið, fellur á snjó, jökla eða hafís dregur það úr endurkastinu og eykur uppsöfnun hita og bráðnun. mbl.is/RAX

Ísland er hvatt til að taka leiða minnkun losunar á kinroki (e. black carbon) sem er, fíngert kolefni sem myndast við ófullkominn bruna olíu og fleiri efna, er það tekur við formennsku í Norðurskautsráðinu nú í mánuðinum. Þetta kemur fram í stefnulýsingu  Clean Arctic Alliance samtakanna (CAA).

Ráðstefna Norðurskautsráðsins hefst í Rovaniemi í Finnlandi í dag með fundi ráðherra ríkjanna átta sem eiga aðild að ráðinu og segir CAA kinrokið verða meðal umræðuefna.

Clean Arctic Alliance  (CAA) segir Norðurskautsráðið hafa viðurkennt strax árið 2015 þá ógn sem stafi af kolefninu og um það sé fjallað í skýrslunni „Framework for Action on Enhanced Black Carbon and Methane Emissions Reductions“ þar sem Norðurskautsríkin skuldbindi sig til að vera í forystu með að draga úr losun kinroks og metangas umfram það sem framleitt er innan landamæra ríkjanna.

Hvetur CAA Ísland til að vera í forystu á heimsvísu varðandi minni losun á kolefninu og  vill að hafist verði handa fyrir fund Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) í London í næstu viku, en þar verður útblástur kinroks frá skipaiðnaðinum á efnisskránni.

Þegar fíngert kolefnið fellur á snjó, jökla eða hafís dregur það úr endurkastinu og eykur uppsöfnun hita og bráðnun. Er hafísinn hopar af völdum loftslagsbreytinga opnast nýjar skipaleiðir sem kunna að leiða til aukins útblásturs, sem muni hraða enn frekar á loftslagbreytingum.

„Með fregnum af því að [Donald] Trump Bandaríkjaforseti hafi reynt að þurrka allar vísanir í loftslagsbreytingar úr yfirlýsingu Norðurskautsráðs þessa vikuna, þá gæti Ísland ekki verið að taka við formennskunni á mikilvægari tíma nú þegar loftslagsmálin eru mál okkar tíma,“ er haft eftir Árna Finnssyni, formanni Náttúruverndarsamtaka Íslands í yfirlýsingu frá samtökunum vegna ákalls CAA.

„Ísland verður að nota formennsku sína til að hraða á aðgerðum. Draga má úr áhrifum kinroks með því  að banna notkun og flutning svartolíu á skipum sem sigla um Norðurheimskautssvæðið  og það er áhrifarík leið til að draga úr ágangi á umhverfi náttúru svæðisins.“

Á fundi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar í apríl í fyrra hvött Norðurskautsríkin, Ísland, Finnland, Svíþjóð, Noregur og Bandaríkin, ásamt Þýskalandi, Hollandi og Nýja Sjálandi til þess að banna notkun og flutning svarolíu um Norðurheimskautinð. Þessi krafa hefur hlotið aukin stuðning, en nýtur enn sem komið er hvorki stuðnings Rússlands né Kanada.

CAA biðlar því Íslands til að hvetja hin Norðurskautsríkin, ekki hvað síst Rússland og Kanada, til að styðja bannið.

„Norðurskautsráðið verður að haga sér í samræmi við skuldbindingu sína um að vera í forsvari fyrir að draga úr losun kinroks, meðal annars þess sem verður til með bruna á svartolíu og sem hefur bein áhrif á loftslag á Norðurskautinu,“  er haft eftir dr. Sian Prior, hjá Clean Arctic Alliance.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert