Vistkerfum jarðar hrakar á hraða sem ekki hefur áður sést í mannkynssögunni og dýra- og plöntutegundir deyja sömuleiðis út á síauknum hraða. Þessi þróun mun líklega hafa alvarleg áhrif á líf fólks um allan heim, ef mannkynið breytir ekki umgengni sinni við náttúruna.
Þetta segir í samantekt á helstu niðurstöðum nýrrar skýrslu á vegum Sameinuðu þjóðanna, sem kynnt var á fundi IPBES, vettvangs stjórnvalda og vísindastefnumótunar um líffjölbreytni og vistkerfi, í París í dag. Von er á skýrslunni í heild sinni síðar á þessu ári.
Skýrslan verður gríðarlega umfangsmikil, eða um 1.500 blaðsíðna löng, og er hún afrakstur þriggja ára vinnu yfir 450 vísindamanna, en 145 vísindamenn frá yfir 50 löndum skrifuðu skýrsluna og 310 vísindamenn til viðbótar lögðu hönd á plóg.
Drög skýrslunnar láku til fjölmiðla fyrir helgi og þá strax varð ljóst að hún myndi draga upp ofsalega dökka mynd af stöðu vistkerfa jarðar. Nú hefur helstu niðurstöðum verið deilt með formlegum hætti.
Í skýrslunni, sem byggir á um 15.000 heimildum, kemur meðal annars fram að yfir ein milljón tegunda, af þeim átta milljónum sem þekktar eru á jörðinni, séu í útrýmingarhættu og að þar af megi búast við því að fjölmargar tegundir deyi út innan fárra áratuga.
Hraði útrýmingarinnar er tugfalt eða hundraðfalt meiri en meðaltal síðustu tíu milljóna ára.
Allar sviðsmyndir sem dregnar eru fram um framtíðarþróun í skýrslunni gera ráð fyrir því að staða vistkerfa náttúrunnar haldi áfram að versna fram til ársins 2050 og áfram veginn, nema þær sem gerðu ráð fyrir því að mannkynið myndi breyta hegðun sinni og umgengni við náttúruna með ummyndandi hætti.
Af öðrum staðreyndum sem skýrslan varpar ljósi á má til dæmis nefna neðangreint:
Þrír fjórðu hlutar alls yfirborðs jarðar, 75%, og 66% af umhverfi sjávar hefur tekið veigamiklum breytingum vegna gjörða mannskepnunnar.
Meira en þriðjungur yfirborðs jarðar og nærri 75% af öllu ferskvatni sem við höfum aðgang að fer í að rækta matvæli eða til kjötframleiðslu.
Matvælaframleiðsla að andvirði 577 milljarða Bandaríkjadala á ársgrundvelli er í hættu sökum þess að frjóberar, tegundir skordýra sem flytja frjó á milli plantna, gætu tapast.
Árið 2015 voru 33% fiskistofna hafsins veiddir með ósjálfbærum hætti, 60% voru við sjálfbærnimörk og einungis 7% stofna voru veiddir undir ýtrustu mörkum sjálfbærni.
Plastmengun á jörðinni hefur tífaldast frá árinu 1980.
300-400 milljónum tonna af þungmálmum, leysiefnum, eitraðri leðju og öðrum iðnaðarúrgangi er sturtað í hafið á ári hverju.
Áburður sem ratað hefur í vistkerfin við strandir ríkja víða um heim hefur leitt til þess að til hafa orðið yfir 400 „dauð svæði“ í hafinu, sem samanlagt eru meira en 245.000 ferkílómetrar að stærð. Það eru næstum því tvö og hálft Ísland.
100 milljónir hektara af hitabeltisskógi töpuðust á árunum á milli 1980 og 2000, aðallega vegna nautgriparæktunar í S-Ameríku og pálmaolíuframleiðslu í SA-Asíu.
Einungis 13% þess votlendis sem var til staðar á jörðinni árið 1700 var enn þá votlendi árið 2000.
„Við erum að eyða sjálfum stoðum efnahags okkar, lífsviðurværa, matvælaöryggis, heilsu og gæða lífs um allan heim,“ er haft eftir Sir Robert Watson, formanni IPBES, í fréttatilkynningu. Hann segir að þrátt fyrir að skýrslan sýni að heilsu vistkerfanna hraki sem aldrei fyrr, sé ekki of seint að bregðast við.
„En bara ef við byrjum núna,“ segir Watson og bætir því við að bæði þurfi aðgerðir í nærumhverfi fólks og samstíga aðgerðir á alheimsgrundvelli til þess að koma í veg fyrir þær hörmulegu afleiðingar sem blasa við fyrir líffjölbreytilega og vistkerfi jarðar.
Mikil áhersla er lögð á að ráðast þurfi í „ummyndandi breytingar“. En hvað er átt við með því?
Samkvæmt Watson eru skýrsluhöfundar að tala um grundvallarbreytingar á því hvernig við högum okkur og líka um breytingar á markmiðum. Skýrsluhöfundar beina því þannig til stjórnvalda heims að stýra heiminum frá því hugarfari að hagvöxtur sé helsta efnahagslega markmiðið.
Vísindamennirnir stinga upp á því að fallið verði frá því að notast við verga landsframleiðslu sem helsta efnahagslega mælikvarðann og taka þess í stað upp heildrænari mælikvarða sem nái utan um gæði lífs og langtímaáhrif. Hverfa þurfi frá þeirri viðteknu venju að setja samasem-merki á milli aukinnar neyslu og aukinna lífsgæða.