Koltvísýringur orðinn að grjóti á 2 árum

„Í hjarta eldfjallaeyjunnar Íslands vinna alkemistar 21. aldarinnar við að umbreyta koltvísýringi í grjót sem varir að eilífu og hreinsa með því loftið af skaðlegum útblæstri sem veldur hlýnun jarðar.“ Á þessari lýsingu hefur AFP-fréttaveitan ítarlega umfjöllun sína um CarbFix-verkefnið sem unnið er í samstarfi Háskóla Íslands og Orkuveitunnar.

Tæknin sem CarbFix hefur þróað yfir rúmlega 11 ára tímabil hefur skilað sér í því að farið er að binda yfir 10 þúsund tonn árlega af losun Hellisheiðarvirkjunar. Tæknin líkir, með mun hraðari hætti, eftir náttúrulegu ferli sem getur tekið þúsundir ára.

Kolt­víoxíð, sem kem­ur upp með jarðhita­vökv­an­um við nýt­ingu hans, er blandað vatni og dælt aft­ur niður í jörðina þaðan sem það kom. Þar binst það var­an­lega í formi steinda. Við þetta á sér stað nátt­úru­legt ferli, sem ger­ist í basalti, sem verður til þess að upp­leystu gös­in verða að grjóti. 

Búa til sódavatn úr koltvísýringi

„Með þessari aðferð höfum við breytt tímaferlinu verulega,“ hefur AFP eftir jarðfræðingnum Söndru Ósk Snæbjörnsdóttur.

Koltvísýringur er ein þeirra gróðurhúsalofttegunda sem samgöngur, iðnaður og eldfjöll losa út í andrúmsloftið í miklu magni á Íslandi.

Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna hvetur nú til aukinna aðgerða til að fanga og geyma koltvísýring með það fyrir augum að draga úr hlýnun jarðar.

Sandra Ósk er í hópi vísindamanna og verkfræðinga Orkuveitunnar og HÍ sem vinna ásamt rann­sókn­ar­ráði franska rík­is­ins (CNRS)  og Columbia-háskólanum að verkefninu á Hellisheiði.

„Við erum í raun bara að búa til sódavatn úr koltvísýringi,“ hefur AFP eftir Eddu Sif Aradóttur, verkefnastjóra hjá CarbFix. Leiðsla frá Hellisheiðavirkjun dæli upp heitu vatni sem keyri sex túrbínur sem sjá Reykjavík fyrir vatni og rafmagni.

Edda sagði í samtali við mbl.is á síðasta ári að bæði kolt­víoxíð (CO2) og brenni­steinsvetni (H2S) leys­ist upp í vatni. „Gas­teg­und­irn­ar eru hreinsaðar frá öðrum jarðhitaga­s­teg­und­um með því að setja gasblönd­una í sturtu þegar hún kem­ur frá virkj­un­inni. Við tök­um vökv­ann með upp­leysta gasinu og dæl­um ofan í berg­lög,“ seg­ir Edda.

Við þetta eigi sér stað nátt­úru­leg ferli, sem ger­ist í basalti, sem verði til þess að upp­leystu gös­in verða að grjóti. „Inn­an tveggja ára eru þau orðin að grjóti og við þurf­um ekki að hugsa meira um þau,“ seg­ir Edda og tek­ur und­ir að til að út­skýra málið á afar ein­fald­an hátt megi segja að verið sé að breyta mengandi út­blæstri í grjót.

Gæti losnað í eldgosi

Sandra Ósk segir að í forprófun sem gerð var hafi næstum allur koltvísýringurinn verði orðinn að grjóti innan tveggja ára. Þegar koltvísýringurinn er orðinn að grjóti þá er hann gott sem fastur þar fyrir fullt og allt.

„Ef það verður eldgos og grjótið hitnar mjög mikið kann eitthvað af efnunum að brotna upp og leysast þá mögulega upp í vatni,“ segir Sigurður Reynir Gíslason, rannsóknarprófessor við HÍ. „Þetta er þó öruggasta og stöðugasta aðferðin til að binda koltvísýring.“

AFP bendir á að síðasta eldgos á þessu svæði hafi orðið fyrir þúsund árum.

Með CarbFix-verkefninu tekst að draga úr útblæstri koltvísýrings frá Hellisheiðavirkjun um þriðjung og nemur kostnaður við bindingu hvers þeirra 12.000 tonna sem þar hafa verið bundin um 3.000 kr. á tonnið.

Til samanburðar, segir AFP, má þó nefna að eldfjöll Íslands losa á bilinu eina til tvær milljónir tonna koltvísýrings á ári.

Vatnsþörfin Akkillesarhællinn

Helsti gallinn við aðferðina sem CarbFix beitir er að hún krefst mikils magns ísalts vatns, sem er að finna í miklu magni á Íslandi en ekki búa öll önnur lönd við sömu vatnsgæði.

„Það er Akkillesarhæll þessarar aðferðar,“ segir Sandra Ósk. „Þetta ferli notar vissulega mikið vatn, en við græðum líka mikið á því að losna varanlega við koltvísýring sem annars færi út í andrúmsloftið,“ segir Edda.

Tilraunir eru nú í gangi með hvort þróa megi aðferðina þannig að einnig sé hægt að nýta salt vatn við bindingu koltvísýringsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert