Flatarmál íslenskra jökla hefur minnkað um 647 km2 frá árinu 2000 og jafnast það á við áttfalt flatarmál Þingvallavatns, eða um hálft Þingvallavatn á ári. Þetta kemur fram í Kvarðanum, nýjasta fréttabréfi Landmælinga á Íslandi.
Er í greininni fjallað um CORINE-flokkunina svo nefndu, sem uppfærð er á nokkurra ára fresti með nýjum gervitunglamyndum.
Megintilgangur flokkunarinnar er að afla sambærilegra umhverfisupplýsinga fyrir öll Evrópuríki og fylgjast með breytingum sem verða á landnotkun í álfunni með tímanum. Fyrsta CORINE-flokkunin var gerð upp úr 1990.
Gerð fjórðu uppfærslu á CORINE landgerðaflokkuninni lauk í nóvember 2018 og sýna helstu niðurstöður þeirrar uppfærslu að rýrnun jökla er mesta landbreyting á Íslandi um þessar mundir. Hefur flatarmál jöklanna rýrnað um 215 km² milli áranna 2012 og 2018 og 647 km² frá árinu 2000, eða um 36 km² að meðaltali á ári.
Aðrar helstu breytingar sem í ljós komu með landgerðarflokkuninni í fyrra eru breytingar vegna árangurs af landgræðslu á Hólasandi í S-Þingeyjarsýslu og á Haukadalsheiði, sunnan Langjökuls. Einnig sýnir hún að í eldgosinu sem myndaði Holuhraun árið 2014 þá runnu 85 km² af hrauni yfir land þar sem aðallega voru sandar og jökuláreyrar áður. Eins er flokkunin sögð sýna fram á að á milli áranna 2000 og 2018 hafa byggð svæði og skógar stækkað.