Ríkið niðurgreiðir meira fyrir tæknifrjóvgun

Þegar reglugerðin tekur gildi verður greiðsluþátttaka sjúkratrygginga vegna tæknifrjóvgunar orðin …
Þegar reglugerðin tekur gildi verður greiðsluþátttaka sjúkratrygginga vegna tæknifrjóvgunar orðin meiri en hún hefur áður verið. Thinkstock/Getty Images

Greiðsluþátttaka vegna tæknifrjóvgunar hefur verið aukin umtalsvert, samkvæmt nýrri reglugerð sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur sett. Þegar reglugerðin tekur gildi verður greiðsluþátttaka sjúkratrygginga vegna tæknifrjóvgunar orðin meiri en hún hefur áður verið. 

„Það er ánægjulegt að geta gert þessa breytingu, því hún jafnar aðgengi fólks að mikilvægri þjónustu.“ Þetta er haft eftir heilbrigðisráðherra vef Stjórnarráðsins

Aukinn kostnaður ríkissjóðs vegna þessara breytinga er áætlaður um 40 milljónir króna á ári. Greiðsluþátttakan miðast við gjaldskrá fyrir þessa þjónustu sem Sjúkratryggingar Íslands gefa út og hefur verið staðfest af ráðherra.

Breytingarnar eru eftirfarandi:

  • Hlutdeild sjúkratrygginga hækkar úr 30% í 65% vegna annarrar meðferðar í glasa- eða smásjárfrjóvgun.
  • Fyrir þriðju og fjórðu meðferð í glasa- eða smásjárfrjóvgun verður greiðsluþátttaka sjúkratrygginga 65% en hún var engin fyrir.
  • Hlutdeild sjúkratrygginga vegna fyrstu meðferðar í glasa- eða smásjárfrjóvgun hækkar úr 5% í 65% ef um er að ræða ófrjósemisvandamál vegna lyfjameðferðar, geislameðferðar eða beinmergsflutnings. Hjá öðrum verður greiðsluþátttakan óbreytt.
  • Sjúkratryggingar munu eftir reglugerðarbreytinguna taka þátt í kostnaði við frystingu á fósturvísum.

Reglugerðin hefur verið send Stjórnartíðindum og öðlast gildi við birtingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert