Facebook hefur gefið út að fyrirtækið hyggist ekki fjarlægja falsað myndband af forstjóranum, Mark Zuckerberg, sem gengur um samskiptamiðilinn Instagram, sem er í eigu Facebook.
Myndbandið, sem er 16 sekúndna langt, er búið til með svokallaðri djúpfölsun þar sem gervigreind er notuð til að búa til sem raunverulegast myndband út frá myndum sem til eru af fórnarlambinu. Þannig má leggja honum orð í munn, í bókstaflegri merkingu, og láta líta út fyrir að hann hafi sagt eitthvað sem hann gerði í raun aldrei.
Í myndbandinu sem framleitt var fyrir listasýningu í Sheffield undir nafninu Spectre þakkar Zuckerberg listamanninum fyrir að hafa gert sér kleift að ná allsherjaryfirráðum yfir gögnum og lífi milljarða fólks.
Fésbók hefur legið undir gagnrýni fyrir að fjarlægja ekki samskonar falsað myndband af Nanci Pelosi, forseta fulltrúadeildar bandaríkjaþings, þar sem hún er látin stama og eiga í erfiðleikum með að koma frá sér heilli setningu líkt og hún sé drukkin. Það myndband var þó að vísu ekki jafnvel útfært og myndbandið af Zuckerberg, og notaðist ekki við djúpfölsun. Donald Trump Bandaríkjaforseti lét það þó ekki stöðva sig í að deila falsfréttinni á Twitter.
Viðbrögð Facebook við beiðninni voru á þá leið að ekkert væri fjarlægt af síðunni nema það varðaði öryggi fólks, svo sem ef harðvítug átök ættu sér stað og fölskum upplýsingum væri dreift um þau, sem gætu ógnað öryggi fólks.
Segja má að Zuckerberg hafi nú fallið á eigin bragði. Lögð hafi verið beita fyrir Facebook til að athuga hvort sömu viðmið væru uppi þegar forstjórinn ætti í hlut. Ljóst er að Facebook ætlar ekki að bíta á agnið.
Fleiri djúpfölsuð myndbönd eru í sýningunni, til að mynda eitt þar sem Kim Kardashian þakkar höturum sínum fyrir að veita samfélagsmiðlum gögn um sig, sem hafi orðið til þess að hún sé nú moldrík.
Hin nýja djúpfölsunartækni hefur vakið upp stórar spurningar um framtíð sönnunarbyrði með myndböndum í sakamálum. Eftir því sem tækninni fleygir fram verður æ auðveldara að falsa myndbönd þar sem hver sem er, er látinn segja og gera hina ýmsu hluti og má velta fyrir sér hvort myndbönd verði því í framtíðinni ekki talin áreiðanlegt sönnunargagn í réttarferlum.