„Þetta var hreint út sagt stórkostlegt,“ segir Sævar Helgi Bragason, landsþekktur vísindafræðari, sem varð í nótt, eftir því sem best er vitað, fyrsti Íslendingurinn til að upplifa þriðja almyrkva á sólu á lífsleiðinni.
Sævar Helgi er staddur í Atacama-eyðimörkinni í Síle þar sem almyrkvi á sólu sást greinilega í nótt. „Að standa á tindi 2.300 metra hás fjalls og horfa á þetta einstaka sjónarspil er eitthvað sem ég gleymi aldrei,“ segir Sævar Helgi, en aðstæður til að upplifa sólmyrkvann voru með besta móti, heiðskírt og lítil sem engin ljósmengun. „Þetta er í alvöru fallegasta og áhrifaríkasta sjónarspil náttúrunnar.“
Sólmyrkvi, eða almyrkvi á sólu, verður þegar tunglið gengur milli sólar og jarðar svo tunglið myrkvar sólina að hluta til eða í heild frá jörðu séð. Almyrkvi verður aðeins þegar sólin, tunglið og jörðin eru í beinni línu. Almyrkvinn í nótt varði aðeins í tæpar tvær mínútur en nú um stundir getur almyrkvi ekki staðið yfir í meira en sjö mínútur og 32 sekúndur, en lengdin ræðst af nokkrum þáttum, svo sem fjarlægð tunglsins frá Jörðinni, fjarlægð Jarðar frá sólu og hvar á Jörðinni myrkvinn er, að því er fram kemur á Stjörnufræðivefnum.
Almyrkvinn í nótt var sá stysti sem Sævar Helgi hefur upplifað, en á sama tíma er þetta þriðji almyrkvinn sem hann sér með berum augum á fjórum árum. Árið 2016 ferðaðist hann til Indónesíu og sumarið 2017 var Sævar Helgi í bænum Casper í Wyoming-ríki þar sem almyrkvi á sólu sást vel.
Sævar Helgi stóðst ekki mátið og tók sólmyrkvann upp á myndskeið, en hann segist hafa „múltitaskað sem aldrei fyrr“ þar sem hann hélt á símanum, horfði með berum augum og skaut sjálfvirkt í gegnum myndavélina. Dýrðina er því hægt að sjá hér að neðan.
„Hver myrkvi er einstakur því útsýnið er aldrei eins og kóróna sólarinnar alltaf mismunandi. Ég fékk kökk í hálsinn og felldi tár enn og aftur. Þetta er bara svona stórkostlegt,“ segir Stjörnu-Sævar, en frá almyrkvanum sem sást vel hér á landi í mars 2015 hefur Sævar varla verið kallaður neitt annað, enda líklega manna fróðastur um stjörnufræði hér á landi.
Í samanburði við aðra atburði í sólkerfinu segir Sævar Helgi að almyrkvi á sólu sé býsna merkilegur. „Jörðin er eina plánetan í sólkerfinu þar sem hægt er að sjá almyrkva á sólu. Maður þarf líka að hafa ansi mikið fyrir því að sjá þá, því almyrkvar verða með að meðaltali 400 ára millibili frá einhverjum tilteknum stað á Jörðinni. Svo það þarf oftast að leggja á sig löng ferðalög til að komast á réttan stað.“
En hvað er þá merkilegra en almyrkvi á sólu?
„Það er aðeins tvennt annað sem ég held að sé fallegra að sjá í sólkerfinu með eigin augum: Hringir Satúrnusar í návígi og plánetan Jörð frá tunglinu. Ég get ekki beðið eftir því að sjá það.“
Einhver bið verður þó á því en Sævar Helgi mun halda áfram að grúska í stjörnufræðinni næstu daga í Síle, þar sem hann er í boði Stjörnustöðvar Evrópulanda á suðurhveli (e. European Southern Obsercatory, ESO). Sævar Helgi er tengiliður samtakanna á Íslandi og starfar einnig fyrir þau, en ESO á og rekur alla stærstu sjónaukana í stjörnustöðinni sem eru jafnframt stærstu sjónaukar í heiminum.
Í dag lá leið Sævars Helga í Very Large Telescope-sjónaukaröðina (VLT), sem er flaggskip evrópskra stjarnvísinda og á morgun heimsækir hann stjörnusjónaukann ALMA, sem er hæsti og stærsti sjónauki í heiminum.