Viðskiptanefnd Bandaríkjanna hefur ákveðið að sekta Facebook um 5 milljarða dala, andvirði um 630 milljarða króna, fyrir að misnota persónuupplýsingar notenda. Ákvörðunin þykir til marks um breytta og hertari afstöðu yfirvalda í garð áhrifamestu tæknifyrirtækja landsins.
Ákvörðunin bíður staðfestingar dómsmálaráðuneytisins, en það hafnar sjaldan úrskurðum nefndarinnar. Verði hún staðfest er um að ræða stærstu sekt sem tæknifyrirtæki hefur hlotið í Bandaríkjunum, og sennilega heiminum öllum, en fyrra met á Google sem fékk 22 milljóna dala sekt árið 2012 fyrir að hafa fylgst með netumferð í Safari-vafranum á iPhone, Mac og iPad og farið þannig á svig við við innbyggðar varnir framleiðandans Apple.
Facebook hefur, að sögn ónafngreindra heimildarmannanna New York Times, samþykkt aukið eftirlit yfirvalda með meðferð fyrirtækisins á gögnum notenda en samkomulagið hefur þó ekki áhrif á möguleika þess til að safna upplýsingum og selja utanaðkomandi aðilum, en það er stór tekjulind fésbókar.
Þrír nefndarmenn repúblikana greiddu atkvæði með tillögunni en demókratarnir tveir kusu gegn. Að sögn heimildarmanna NY Times kusu demókratarnir gegn tillögunni þar sem þeir vildu setja samfélagsmiðlinum þrengri skorður um vinnslu persónuupplýsinga.
Ákvörðunin er sögð á skjön við almenna stefnu Donalds Trump Bandaríkjaforseta sem hefur verið duglegur við að afnema reglugerðir sem hann segir fyrirtækjum íþyngjandi. Hingað til hafa flestar stærstu sektir amerískra tæknifyrirtækja komið frá Evrópusambandsins, og má þar nefna sektir sem framkvæmdastjórn sambandsins hefur lagt á Amazon, Apple, Facebook og Google, ýmist vegna brota á samkeppnisreglum eða vinnslu persónuupplýsinga.
Má þar nefna 4,34 milljarða evra (540 milljarða króna) sekt sem samkeppniseftirlit Evrópusambandsins lagði á Google vegna brota á samkeppnislögum þar sem það skilyrði var sett farsímaframleiðendum fyrir notkun Android-stýrikerfis fyrirtækisins að annar hugbúnaður fyrirtækisins, svo sem vafrinn Chrome, væri notaður.
Persónuverndarlöggjöf Evrópusambandsins (GDPR) sem tók gildi í fyrra, og hefur verið tekin upp hér á landi, þykir sú umfangsmesta sem sett hefur verið og hafa löggjafar víða um heim litið hýru auga til hennar.