Einn umfangsmesti geimleiðangur rússneskra stjórnvalda frá Sovéttímanum hófst í gær þegar Spektr-RG-sjónaukanum var skotið á loft frá Baikonur á landamærum Rússlands og Kasakstan. BBC greinir frá.
Verkefnið er unnið í samvinnu við þýsk stjórnvöld og er ætlunin að kortleggja röntgengeisla himinhvolfsins með áður óséðri nákvæmni. Vísindamenn segja að kortlagningin muni hjálpa þeim að skilja betur uppbyggingu alheimsins og standa vonir til að Spektr-RG muni varpa ljósi á ástæður hraðandi útþenslu alheimsins.
Þá ætti sjónaukinn að bera kennsl á fjölda nýrra uppspretta röntgengeisla, svo sem risavaxin svarthol sem finna má í miðju vetrarbrauta. Þegar gas sogast inn í ferlíkin hitnar efnið og gefur frá sér röntgeisla. Þeir gefa því miklar upplýsingar um hin dularfullu og ógnvekjandi fyrirbæri svarthol, sem nýverið náðust í fyrsta sinn á mynd.
Sjónaukanum var skotið á loft á hádegi, að íslenskum tíma, í gær en vikur gætu liðið þar til hann er kominn á sporbaug um jörðu og vinna hans getur hafist af alvöru. Fyrst þarf eldflaugin að ferðast um 1,5 milljónir kílómetra frá jörðu, á stað sem kallaður er Lagrange-punktur 2.