Indverjar senda flaug til tunglsins

Tunglflauginni Chandrayaan-2 er hér skotið á loft. Flaugin er nú …
Tunglflauginni Chandrayaan-2 er hér skotið á loft. Flaugin er nú komin á sporbaug um jörðu. AFP

Indverjar sendu í dag á loft tunglflaug, viku eftir að fresta þurfti fyrirhugaðri ferð flaugarinnar vegna tækniörðugleika.

Flauginni sem ber nafnið Chandrayaan-2 var skotið upp klukkan 14:43 að staðartíma frá Sriharikota geimstöðinni og sagði yfirmaður geimferðastofnunarinnar flaugina hafa náð sér fyllilega á strik eftir að fresta þurfti síðasta skoti.

BBC segir indversk stjórnvöld vonast til að geimflaugin verði sú fyrsta sem nái að lenda á suðurpól tunglsins, en kostnaður við ferðina er talinn nema um 150 milljónum dollara.

Flaugin, sem er ómönnuð, er nú komin á sporbaug um jörðu og mun dvelja þar næstu 23 daga áður en hafist verður handa við röð tilfæringa sem eiga að koma henni á sporbaug um tunglið.

Sýnt var frá geimflaugarskotinu í beinni útsendingu í indversku sjónvarpi og ómuðu fagnaðarlæti um stjórnstöð indversku geimstöðvarinnar í nokkrar mínútur eftir að flaugin hélt af stað.

Um er að ræða flóknasta leiðangur sem indverska geimferðamiðstöðin hefur sent á loft til þessa.

„Þetta er byrjunin á sögulegri ferð Indlands í átt að tunglinu,“ sagði K Sivan, forstjóri stofnunarinnar, í ræðu eftir geimskotið.

Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, lofaði þá leiðangurinn fyrir að vera alfarið indverskan.

Indverskir námsmenn veifa hér fána landsins er þeir fylgjast með …
Indverskir námsmenn veifa hér fána landsins er þeir fylgjast með skoti tunglflaugarinnar. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert