Taka leiðandi netfyrirtæki til rannsóknar

Rannsókn bandaríska dómsmálaráðuneytisins er talin líkleg til að taka til …
Rannsókn bandaríska dómsmálaráðuneytisins er talin líkleg til að taka til Facebook, Google, Apple og Amazon. AFP

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur tilkynnt að rannsókn verði hafin á leiðandi netfyrirtækjum og hvort þau séu með ósanngjörnum hætti að hindra samkeppni. Engin fyrirtæki eru nefnd á nafn í tilkynningunni en líklegt verður að teljast að rannsóknin taki til fyrirtækja á borð við Facebook, Google, Amazon og Apple.

Eru víðtækar áhyggjur af leitarmöguleikum, samfélagsmiðlum og sumum netverslunum sagðar ástæða þess að farið er í rannsóknina.

BBC segir dómsmálaráðuneytið hafa fulla heimild til að rannsaka þau fyrirtæki sem það grunar um brot á samkeppnislögum. Þá getur ráðuneytið brotið upp í smærri einingar fyrirtæki sem það telur vera of ráðandi á markaði.

Bandaríska viðskiptanefndin er þegar með svipað mál til skoðunar og þá er Evrópusambandið nú að kanna hvort þörf sé á að hefja sambærilega rannsókn í ríkjum ESB.

Greint var frá því í síðasta mánuði að dómsmálaráðuneytið væri að undirbúa rannsókn á Google til að ákvarða hvort leitarvélarrisinn hefði brotið lög um hringamyndun.

Sagði ráðuneytið þá að rannsókn þess muni skoða hvort og þá hvernig leiðandi netfyrirtæki hafi hamlað nýsköpun eða skaðað neytendur með öðrum hætti. Er rannsóknin talin líkleg til að skoða hvernig fyrirtækin hafi stækkað og aukið völd sín með því að auka umfang sitt og hvernig þau hafi notað þau völd sem felast í því að hafa umfangsmikið net notenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert