Mengunin 200 sinnum meiri en ella

Brennisteinssvifryk frá Queen Victoriu var mælt af Press-Kristensen við Sundahöfn.
Brennisteinssvifryk frá Queen Victoriu var mælt af Press-Kristensen við Sundahöfn. Ljósmynd/Náttúruvernd

Stjórnarformaður Náttúruverndarsamtaka Íslands segir aðkallandi að skerpa á reglum um bruna svartolíu við Ísland. Telur hann að alþjóðasamkomulag um að banna bruna svartolíu á norðurslóðum vera skilvirkustu leiðina til að hægja á bráðnun jökla. 

Náttúruverndarsamtök Íslanda hafa að undanförnu mælt mengun frá skemmtiferðaskipum í Sundahöfn og er mengunin engu minni en hún mældist í sambærilegum mælingum fyrir tveimur árum. 

„Við gerðum samskonar mælingar 2017 og þessar niðurstöður eru keimlíkar. Þetta eru  smáagnir sem eru í reyknum frá þessum vélum. Mengunin verður 200 sinnum meiri en hún væri annars. Þetta er gríðarlega mikil mengun sem fylgir losun brennisteinssvifryks,“ segir Árni. 

Árni Finnsson.
Árni Finnsson. Mbl.is/Hari

„Þegar þessi skip sigla út Faxaflóann er vindáttin oft þannig að þessi mengun berst inn í borgina og það er ekki mjög heilsusamlegt. Það verður að taka á þessu. Til lengri tíma litið er eina vitið að þessi skip hætti að brenna olíu og noti annað eldsneyti sem ekki mengar,“ segir Árni og bætir við að vel sé hægt að fá eldsneyti sem mengi minna en svartolía. 

Segir að banna þurfi svartolíu

„Það ætti bara að banna svartolíu hérna, hún ætti ekki að hafa neitt erindi hingað. Ég get tekið sem dæmi Vancouver í Kanada, skemmtiferð sem koma þangað og nota svartolíu eru bara ekki velkomin.“ 

Náttúruverndarsamtök Íslands tilheyra því sem heitir á ensku Clean Arctic Alliance og eru regnhlífarsamtök fyrir umhverfisverndarsamtök sem vinna að því að banna svartolíuna á norðurslóðum. 

Skemmtiferðaskip kemur að bryggju, með svart ský á eftir sér.
Skemmtiferðaskip kemur að bryggju, með svart ský á eftir sér. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Daninn Kåre Press-Kristensen frá danska Vistfræðiráðinu sá um mælingarnar hér á landi, en danska Vistfræðiráðið tilheyrir einnig Clean Arctic Alliance.

Varð það mat Press-Kristensen að mengun frá skemmtiferðaskipum í Reykjavík veldur sömu heilsuspillandi loftmengun og í öðrum stærri borgum. Segist hann mæla með því að settar verði upp rafgeymslustöðvar í íslenskum höfnum og að skipum verði gert að nota íslenskt rafmagn á meðan þau eru í höfn.

Þá segir hann ennfremur að íslenskt svartolíubann myndi takmarka loftmengun frá skipum við Íslandsstrendur og takmarka þann skaða sem olíulekar og ólögleg losun skipaolíu valda.

Svört ský úti við sjóndeildarhringinn 

Árni segir reglur um eldsneytisnotkun skipa ekki nógu skýrar og að skerpa þurfi á allri lagaumgjörð svo draga megi úr mengun og ekki síst til að hægja á bráðnun jökla á norðurslóðum.

„Þessi skip sem brenna svartolíu eiga að skipta yfir í léttari eldsneyti áður en þau koma inn í firði og flóa en ég er ekki viss um að þau geri það. Ég horfði á eftir skemmtiferðaskipi í gær og ég trúi ekki öðru en að það hafi verið svartolía, það sést bara á reyknum. Svört ský út við sjóndeildarhringinn. 

Skemmtiferðaskip í Sundahöfn brennir svartolíu og brennisteinssvifryki blæs yfir borgina.
Skemmtiferðaskip í Sundahöfn brennir svartolíu og brennisteinssvifryki blæs yfir borgina. mbl.is/Árni Sæberg

„Það þarf að setja þessu mun skýrari mörk. Að okkar mati þyrfti að komast að alþjóðlegu samkomulagi um að bruni svartolíu á norðurslóðum verði bannaður. Á norðurslóðum er bruni svartolíu sérstaklega skaðlegur því sótagnirnar setjast á ísinn og jökla og hraða bráðnun. Þær dekkja yfirborðið og þá drekkur ísinn og jökullinn meira af hita í sig frá sólinni. Að banna svartolíu á Norðurslóðum væri einhver virkasta aðgerð til skamms tíma sem hægt væri að grípa til svo hægja megi á bráðnu jökla. 

„Fyrir utan það er svartolían mjög mengandi og ef slys yrði og svartolía færi í sjóinn er algjörlega vonlaust að hreinsa hana.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert