Ný sýn á hugmyndir Darwins

Þorskurinn er seigur og gen hans leyna á sér.
Þorskurinn er seigur og gen hans leyna á sér. mbl.is/RAX

Alþjóðlegur hópur vísindamanna, þar á meðal úr Háskóla Íslands, hefur þróað nýja aðferð til að finna gen sem tengjast náttúrulegu vali hjá tegundum. Einar Árnason, prófessor í þróunar- og stofnerfðafræði við HÍ, og Katrín Halldórsdóttir, sérfræðingur við Líf- og umhverfisvísindastofnun skólans, eru ein þeirra sem hafa unnið að verkefninu, sem nýtist meðal annars til að varpa nýju ljósi á náttúrulegt val hjá íslenska þorskstofninum og þorski í Barentshafi.

Eitt meginmarkmiða vísindamanna innan stofnerfðamengjafræðinnar hefur verið að skilja hvernig aðlögun lífvera að staðbundnum umhverfisaðstæðum hefur áhrif á munstur erfðabreytileika í erfðamenginu og að leita að leiðum til að greina þessi munstur, að því er fram kemur í tilkynningu frá Háskólanum.

Einar Árnason og Katrín Halldórsdóttir á líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla …
Einar Árnason og Katrín Halldórsdóttir á líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Aðferðin, sem hér var þróuð, er byggð á rannsókn sem fjallað var um nýlega í grein vísindatímaritsins Genome Research. Hún nefnist „tengslanetsháður fundur á valsópun“ og hefur að sögn reynst geysivel í að finna gen í erfðamenginu sem hafa orðið fyrir sterku vali.

Helstu niðurstöður eru þær að til séu gen fyrir mikilvægar aðlaganir að umhverfinu, meðal annars í ónæmiskerfi og efnaskiptaferlum. Þá sýndi rannsóknin í hvaða stofnum stór svæði í erfðamengi þorsks urðu fyrir náttúrulegu vali, en Íslendingarnir beindu sjónum sínum að þorsknum, helsta nytjafiski okkar Íslendinga.

„Niðurstöðurnar undirstrika mikilvægi þess að skilja erfðamengi þessara tveggja vistgerða þorsks [djúpfars- og grunnfarsfisks] sem kunna að leggja mismikið til veiðistofnsins sem Íslendingar sækja í,“ er haft eftir Einari og Katrínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert