Hægt er að skilgreina ástríðu sem mikla löngun/vilja til að verða betri eða ná árangri á vissu sviði (e. passion for achievement).
Ef við sjáum fyrir okkur ör af vissri stærð þá hefur hún stefnu, styrk og stærð.
Stefnan: Mikilvægt er að skilja að ástríða setur stefnuna fyrir hvaða svið/þema/færni við viljum bæta okkur í eða ná árangri í.
Styrkur/stærð: Það er úr mörgu að velja og mikilvægt er að reyna að finna það svið sem maður hefur mikla löngun til að bæta sig á. Styrkur og stærð ræðst á því sem Angela Duckworth kallar þrautseigju (e. grit). Aðrir fræðimenn tala um e. „mental toughness“, eða „hardiness“. Menn telja að gróskuhugarfar sé mikilvægt til að einstaklingar öðlist þrautseigju og nái að takast á við verðugar áskoranir á jákvæðan hátt. Stikkorðið í sambandi við gróskuhugarfar er að sjá möguleikana á grósku eða vexti. Ef einstaklingur sem ekki hefur ennþá góða kunnáttu í að spila á gítar er spurður hvort hann hafi góða færni í gítarleik svarar sá sem hefur gróskuhugarfar „ekki enn þá“. Sem þýðir að einstaklingurinn telur sig ekki hafa þá færni enn þá en að hann geti tileinkað sér hana með þjálfun. Prófessor Carol Dweck hefur fundið út með áratuga rannsóknum að gróskuhugarfar er mikilvægt til að ná árangri á mismunandi sviðum.
Þannig má segja að það að finna út hvað kveikir hjá þér neista eða ástríðu sé gífurlega mikilvægt hlutverk foreldra, kennara og annarra sem sinna umönnun einstaklinga.
Lestur: Í sambandi við lestur/lesþróun sýna rannsóknir fram á mikilvægi réttra bóka fyrir einstaklinga. Hvað þá langar að lesa tengist kyni, mismunandi bækur kveikja áhuga hjá strákum og stelpum. Hvernig kveikjum við lestrarneistann og fáum börn/unglinga til að lesa meira og öðlast þannig mikilvæga þjálfun fyrir lestur sem skilar sér í meiri lesskilningi og þekkingu?
Hreyfing: hvað fær einstakling til að stunda reglulega hreyfingu? Hvort sem það er barn, unglingur eða eldri. Höfum hugfast að stunda hreyfingu í 30-60 mínútur á dag á að vera markmið okkar. Hvað fær okkur til að kveikja hreyfingarneistann óháð aldri?
Náttúrufræði: hvernig náum við að kveikja áhugann hjá börnum og unglingum á sviði náttúrufræði, umhverfisverndar og sjálfbærni. Meiri þekking á þessu mikilvæga sviði skilar sér í meiri fókus á þessi málefni fyrir komandi kynslóðir.
Gefum okkur tíma til að finna hvað okkur langar að fást við og bæta okkur í.
Okkar rannsóknarhópur hefur nú þróað nýtt próf (e. Passion Scale, birt í tímaritinu New Ideas in Psychology) þar sem hægt er að mæla ástríðu fyrir því að verða betri á sínu sviði. Fyrstu niðurstöður eru gífurlega spennandi og geta varpað ljósi á meðal annars kynjamismun á sambandi ástríðu og þrautseigju og ástríðu og gróskuhugarfars. Einnig getur prófið hjálpað okkur að skilja betur það flókna samspil ólíkra þátta sem eru mikilvægir fyrir nám, það að bæta sig og að ná árangri.