Niðurstöður nýrrar rannsóknar vísindamanna við Kaupmannahafnarháskóla og Montreal-háskóla í Kanada leiða í ljós að þröskuldur einhverfugreininga hefur farið stöðugt lækkandi á síðustu 50 árum. Verði þetta áframhaldandi þróun er það mat rannsakendanna að eftir 10 ár verði þröskuldurinn svo lágur að ekki verði hægt að merkja neinn mun á þeim sem greindur er með einhverfu og þeim sem ekki greindir með einhverfu.
Einhverfa verði þannig merkingarlaust hugtak.
Breska blaðið Telegraph fjallaði um rannsóknina, sem birtist í vísindaritinu Jama Psychiatry í vikunni. Í frétt Telegraph kemur fram að um 1% Breta séu nú með einhverfugreiningu, sem sé um tuttuguföld aukning frá því á sjötta áratug síðustu aldar.
Sálfræðiprófessorinn Lauren Mottron við Montreal-háskóla segir að ef svo haldi áfram sem horfi muni „hlutlægur munur á þeim sem eru með einhverju og fólki almennt hverfa innan 10 ára.“
Með þessum orðum vísar hann til þess að sífellt sé verið að greina fólk með vægari og vægari einhverfu. Skilgreiningin á einhverfu sé af þessum sökum að verða óskýr, sem geri einhverfugreiningar „hversdagslegar“, þar sem við erum í auknum mæli að beita greiningunni á fólk sem er á vægari enda einhverfurófsins.
Rannsóknin tók til einhverfugreininga 23.000 einstaklinga, sem greind voru með einhverfu á árunum 1966-2019. Rannsakendurnir komust að þeirri niðurstöðu að á umliðnum áratugum hefði mælanlegur munur þeira sem eru á einhverfurófi og annarra minnkað um allt að 80%.
„Fyrir fimmtíu árum var það eitt merki einhverju að hafa lítinn áhuga á öðrum,“ segir Mottron og bætir við: „Í dag er það einfaldlega að eiga færri vini en aðrir. Áhugi á öðrum er mældur á ýmsan hátt, til dæmis með því að fylgjast með augnsambandi fólks. En feimni, ekki einhverfa, getur komið í veg fyrir að sumt fólk líti í augu annarra.“
Mottron segir að það ætti að hugsa fyrst og fremst um alvarlegustu tilfelli einhverfu, til dæmis þegar verið er að vinna að lyfjaframleiðslu til þess að hjálpa þeim sem eru með einhverfu. „Ofgreiningar“ fólks með einhverfu þýði að þegar verið sé að prófa ný lyf og meðferðir taki einstaklingar þátt í þeim rannsóknum sem ekki hafi einhverfu í raun, heldur séu á vægari enda rófsins.
Sérfræðingarnir vilja þannig gera greinarmun þarna á, en ekki setja alla sem á einhverfurófi undir sama hatt. Þeir telja „ofgreiningar“ undanfarinna áratuga hafa átt sér stað þar sem oft sé erfitt að nálgast hjálp og stuðning án þess að vera með læknisfræðilegar greiningar. Þau telja líka að þau skilaboð, sem komið hafi frá hagsmunaaðilum ýmsum í gegnum árin, um að því fyrr sem einstaklingar greinist því betra, hafi valdið því að fólk „ani til greiningar“.
Mottron segir sömuleiðis að sumir kollegar hans í hópi sálfræðinga telji það hægari vanda að greina einstaklinga með einhverfu, en að greina þá treggáfaða eða með persónuleikaröskun.
Telegraph ræddi rannsóknina við Carol Povey, stjórnanda hjá einhverfusamtökunum National Autistic Society í Bretlandi. Hún sagði að rannsóknin vekti upp ýmsar áleitnar spurningar, en að fólk ætti ekki að ana að því að álykta of mikið út frá henni.
Hún telur margar ástæður geta verið fyrir því að rannsakendurnir komist að þeim niðurstöðum sem rætt er um að ofan.
„Skilningur okkar á einhverfu hefur breyst mikið frá því að einhverfa var fyrst grein á fimmta áratug síðustu aldar og nú er það almennt viðurkennt að einhverfa sé á rófi. Þetta þýðir að hver og ein einhverf manneskja sé ólík öðrum, en að allir eigi í vanda sem tengist tjáskiptum og félagslegum samskiptum,“ segir Povey, sem bætti því jafnframt við að sérfræðingar væru sífellt að verða betri í því að greina hvernig einhverfa komi fram hjá fólki með mismunandi hætti, til dæmis hjá konum og stúlkum.