Vökvabann gæti heyrt sögunni til

Sem stendur er farþegum meinað að vera með vökva umfram …
Sem stendur er farþegum meinað að vera með vökva umfram 100 ml í handfarangri. AFP

Ný tækni í öryggisleit breskra flugvalla verður hugsanlega til þess að banni við vökva í handfarangri verður aflétt. Samkvæmt nýrri löggjöf verða allir stærstu flugvellir Bretlands að hafa tekið nýjan búnað í notkun fyrir árið 2022, en uppsetning hans er þegar hafin á Heathrow-flugvelli.

Ráðherrar segja að þrívíddartæknin verði til þess að auka öryggi og að hugsanlega verði hægt að aflétta banni við vökva og fartölvum í handfarangri.

Tæknin er ekki ólík sneiðmyndatækni og gerir starfsfólki í öryggisleit kleift að stækka farangurinn sem þau sjá á skjánum og snúa honum í bak og fyrir til að skoða frá öllum hliðum.

Sem stendur er farþegum meinað að vera með vökva umfram 100 ml í handfarangri, og þarf öllum vökva að vera komið fyrir í litlum, glærum, lokanlegum plastpoka. 

Með sprengiefni í drykkjarflöskum

Reglurnar voru fyrst settar í nóvember árið 2006, þegar allur vökvi hafði verið bannaður um þriggja mánaða skeið í kjölfar þess að breska lögreglan kom upp um ráðagerð um að granda allt að tíu flugvélum með því að fela sprengiefni í drykkjarflöskum.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti löggjöfina blaðamönnum á dögunum og sagði hana ætlaða til þess að auka öryggi og draga úr fyrirhöfn flugfarþega.

Með því að gera ferðina í gegnum breska flugvelli auðveldari en nokkru sinni myndi þessi nýja tækni efla flugvelli enn frekar í sínu mikilvæga hlutverki að tryggja stöðu Bretlands sem miðstöð viðskipta, ferðamennsku og fjárfestinga.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert