„Vikurfleki“ á reki í Kyrrahafinu

Vikurflekinn er á stærð við 20.000 fótboltavelli.
Vikurflekinn er á stærð við 20.000 fótboltavelli. Ljósmynd/Loftslagsstofnun Evrópusambandsins

Risastór „fleki“ úr vikri, sem er yfir 150 ferkílómetrar flýtur nú um í Kyrrahafinu að sögn vísindamanna. Það voru ástralskir sjómenn sem urðu fyrr í þessum mánuði fyrstir varir við vikurflekann, sem er á stærð við 20.000 fótboltavelli.

BBC greinir frá og segir sérfræðinga telja líklegt að vikurinn komi úr neðansjávareldfjalli í nágrenni eyjunnar Tonga, sem gervihnattamyndir sýndu gos í 7. ágúst.

Hafa sjómenn verið varaðir við mögulegri hættu sem kunni að stafa af vikrinum. Vikur er eðlisléttur og getur flotið, en hann verður til þegar kvika kólnar hratt.

Að sögn sérfræðinga eru slíkir flekar líklegri til að myndast þar sem gos verður á litlu dýpi.

Sýni hafa verið send af vikrinum til vísindamanna við Tækniháskólann í Queensland (QUT) í Ástralíu til frekari skoðunar, en vikurinn er mjög misstór, allt frá því að vera á stærð við litlar glerkúlur og yfir í steina á stærð við körfubolta.

„Í augnablikinu er milljarður lítilla vikursteina sem fljóta þarna um saman, en með tímanum munu þeir dreifa sér yfir stærra svæði,“ segir Scott Bryan, jarðfræðingur við QUT.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert