4 Evrópuríki ekki lengur örugg ríki

Mislingasmitum hefur fjölgað mjög í Evrópu undanfarin misseri.
Mislingasmitum hefur fjölgað mjög í Evrópu undanfarin misseri. AFP

Mislingatilvikum hefur fjölgað gríðarlega í Evrópu og eru fjögur ríki sem áður voru talin hafa útrýmt mislingum ekki lengur á lista Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) yfir örugg ríki. Meðal þeirra er Bretland. 

WHO hvetur ríki Evrópu til að gera gangskör að því að fjölga bólusetningum gegn mislingum. Mikil fjölgun mislingasmits sé áhyggjuefni og ef ekki er mjög hátt hlutfall barna bólusett þá eru bæði börn og fullorðnir í lífshættu, samkvæmt upplýsingum frá WHO. 

Alls greindust 89.994 mislingasmit í 48 ríkjum Evrópu á fyrstu sex mánuðum ársins. Það er meira en tvöfalt fleiri smit og á sama tíma í fyrra þegar 44.175 tilvik voru skráð. Allt árið í fyrra greindust 84.462 einstaklingar með mislinga í Evrópu. 

Samkvæmt tölum frá því í fyrra eru Albanía, Bretland, Grikkland og Tékkland ekki lengur meðal þeirra ríkja sem hafa útrýmt mislingum en í öllum þessum ríkjum greindust mislingar í fyrra. 

Í Bretlandi voru smitin 953 talsins í fyrra og 489 á fyrstu sex mánuðum ársins í ár. Í Grikklandi voru þau 2.193 í fyrra og 28 í ár. Í Albaníu voru 1.466 mislingasmit greind í fyrra og 475 í ár en Tékklandi voru þau 217 í fyrra en 569 í ár. 

Mislingar greindust síðast í Reykjavík í júlímánuði en fyrr á árinu greindust óvenjumörg smit á Íslandi.

Allt um mislinga

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka