96% Íslendinga með háhraðanet

Háhraðainternettengingum með 100 Mb/sek og meira hefur fjölgað í öllum …
Háhraðainternettengingum með 100 Mb/sek og meira hefur fjölgað í öllum löndunum sem taka þátt í samanburðinum, en þar eru Íslendingar í öðru sæti á eftir Svíum. AFP

Þegar kemur að útbreiðslu háhraðaneta með 30 Mb/sek eða meira eru 96% íslenskra heimila tengd slíkum netum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu. 

Skýrslan er unnin af Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) og systurstofnunum hennar á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum. Þar er fjallað um notkun helstu þátta fjarskiptaþjónustu og þróun undanfarinna ára í löndunum átta. Þetta er tíunda árið í röð sem fjarskiptanotkun íbúa Norðurlandanna er borin saman og Eystrasaltslöndin hafa einnig verið með síðustu ár.

„Á heildina litið er fjarskiptanotkun mjög lík í þessum löndum og íbúar þeirra nýta sér sambærilega tækni á svipaðan máta. Þrátt fyrir það má þó víða sjá mun á notkun og þróun einstakra þátta.

Íslendingar eru enn eitt árið með flestar fastar háhraðanettengingar miðað við höfðatölu fyrir auglýstan niðurhalshraða 30 Mb/sek eða meira. Ástæðuna má rekja til fjölgunar VDSL- og ljósleiðaratenginga hér á landi.


Þegar kemur að útbreiðslu háhraðaneta með 30 Mb/sek eða meira eru 96% íslenskra heimila tengd slíkum netum. Hvað varðar útbreiðslu háhraðaneta er í skýrslunni gerður greinarmunur á „homes connected“ og „homes passed“, tölurnar fyrir Ísland miða við skilgreininguna „homes connected“ sem þýðir að inntak heimtaugar netsins er frágengið fyrir innan útvegg. „Homes passed“ sem önnur lönd nota þýðir hins vegar að tenging er til staðar úti í götu og mögulegt að fá hana lagða inn í hús með skömmum fyrirvara. Tölur landanna eru þó sambærilegar því í báðum tilvikum er útbreiðsluverkefni lokið og heimili getur pantað þjónustu þar sem netið verður fulltengt inn á heimilið þegar pöntun berst.
Samkvæmt ofangreindum skilgreiningum er Ísland á toppnum með útbreiðslu til 96% heimila, Danmörk í öðru sæti með 95% og Svíþjóð með 92%,“ segir í tilkynningu.

Háhraðanettengingum með 100 Mb/sek og meira hefur fjölgað í öllum löndunum sem taka þátt í samanburðinum, en þar eru Íslendingar í öðru sæti á eftir Svíum. Svíar eru einnig langefstir hvað varðar áskriftir þar sem tæki eru í sjálfvirkum samskiptum við önnur tæki. Þetta eru svokallaðar tæki-í-tæki- eða TíT-áskriftir sem á ensku kallast Machine to Machine eða M2M.

Gagnamagnsnotkun í farnetum heldur áfram að aukast hratt í öllum löndunum en þar bera Finnar höfuð og herðar yfir hinar þjóðirnar. Íslendingar, Danir og Svíar skera sig úr þegar litið er til áskrifta að fastlínusíma með IP-tækni. Aukningin hér á landi skýrist m.a. af fjölgun ljósleiðaratenginga hérlendis og fyrirhugaðri lokun á talsímakerfinu PSTN sem áætlað er að leggja niður árið 2020. Þess ber að geta að hinir almennu notendur eiga ekki að verða varir við þá breytingu, segir enn fremur í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka