Gatwick-flugvöllur verður fyrsti breski flugvöllurinn sem mun nota andlitsgreiningartæki til frambúðar. Með því verður farþegum gert kleift að ferðast án þess að manneskja líti á vegabréf þeirra eða flugmiða.
Flugvöllurinn, sem framkvæmdi nokkrar tilraunir í samrekstri við flugfélagið EasyJet, mun nýta andlitsskönnunartæknina hjá átta brottfararhliðum eftir að flugbrautin verður framlengd árið 2022. Sunnudagsblað Telegraph greinir frá þessu.
Heathrow-flugvöllur mun líklega tilkynna svipuð áform fyrir árslok. Stjórnendur á þeim flugvelli eru sagðir eiga í viðræðum sem koma andlitsskönnunartækni á þar. Prófanir á tækninni hafa staðið yfir í sumar en þær hafa kostað flugvöllinn 50 milljónir punda eða því sem nemur tæpum átta milljörðum íslenskra króna.
Andlitsskönnunartæknin gerir farþegum kleift að ganga í gegnum öryggisleit og inn í flugvél án þess að nokkur manneskja biðji þá um farmiða eða vegabréf.
Farþegar sem kjósa að nota þjónustuna láta skanna andlitið á sér með tækni sem getur staðfest að þeir séu réttmætir eigendur vegabréfa sinna.
Gatwick-flugvöllur notar einnig forritið Iris recognition, framúrstefnulega tækni sem skynjar einstakt mynstur augna farþega úr fjarlægð, til þess að ákvarða hvort farþegar hafi gengið inn í rétta setustofu fyrir flugferðir sínar.
Gatwick-flugvöllur fullyrðir að Iris recognition virki jafnvel þó að farþegar notist við gleraugu eða linsur.
Verkefnin á flugvöllunum tveimur eru hluti af víðtækri áætlun um fjárfestingar til að hagræða farþegaferðum og hefur sú áætlun farið fram út væntingum, að sögn heimildarmanna Telegraph.