Nýja testamentið á íslensku er nú í fyrsta skipti aðgengilegt til hlustunar á snjalltækjum og snjallforriti, hlustendum að kostnaðarlausu. Hægt er að hlusta á guðsorðið á biblíuappi Youversion og á Biblian.is, heimasíðu Hins íslenska biblíufélags. Opnað var fyrir aðgang í morgun.
Hið íslenska biblíufélag leiddi hópfjármögnun til að hljóðrita Nýja testamentið til hlustunar á snjalltækjum, snjallforritum og tölvum. „Staðreyndin er sú að lestur og athygli fólks hefur færst yfir á snjalltækin. Það eru fáir með biblíuna í vasanum en allir eru með símann í vasanum,“ segir Grétar Halldór Gunnarsson, formaður framkvæmdanefndar Hins íslenska biblíufélags.
„Í auknum mæli er fólk að hlusta á bækur og við vildum hjálpa fólki að gera það sem það er þegar að gera með því að geta hlustað á Nýja testamentið sem er áhrifaríkasta rit menningarsögunnar,“ segir Grétar
Lesarar eru leikararnir Arnar Jónsson, Kristján Franklín Magnúss, Guðjón Davíð Karlsson, Guðrún Ásmundsdóttir, Ragnheiður Steindórsdóttir, Steinunn Jóhannesdóttir og Þóra Karítas Árnadóttir.