Atvinnumarkaðurinn og atvinnumöguleikar nútímans eru að breytast hratt samhliða sífelldri tækniþróun. Hvert einasta vel meinandi foreldri sem hefur reynt að gefa táningi sínum góð ráð varðandi framtíðina en einungis fengið svar í formi kaldhæðnislegra augnagota veit að slík umræðuefni er best að nálgast með varúð.
Í tæknibyltingu nútímans er jafnvel orðið enn varasamara að ætla sér að stýra unga fólkinu inn á hefðbundnar brautir til starfsframa þar sem þær brautir munu margar hverjar fljótlega tilheyra fortíðinni.
Sjálfvirkni og tækni eru að endurskapa atvinnumarkaðinn og störfin sem við sinnum og munum sinna í framtíðinni auk þess sem þau skapa aðra og öðruvísi möguleika til að sjá fyrir sér.
Þetta hefðbundna „9 til 17“-fyrirkomulag sem við öll þekkjum og hefur mótað vinnumarkaðinn í áratugi er hægt og bítandi að verða veigaminna og víkja fyrir svokölluðu „verkefnahagkerfi“ (e. gig economy) sem er að verða vinsælla með aukinni tækniþróun og nýsköpun fyrirtækja á borð við Uber og Lyft.
Hagfræðingar segja að ungt fólk eigi að búa sig undir að eiga fimm mismunandi starfsferla á æviskeiði sínu. En hvaða menntun og hvaða störf munu standast tímans tönn og hvaða hæfileika er best að hafa á vinnumarkaði framtíðarinnar?
Breski miðillinn the Telegraph ræddi við þrjá starfsferilssérfræðinga sem gáfu álit sitt.
Carolyn Perry, forstjóri Career Alchemy's INSPiRED Teenager career and life-coaching programme, segir að langtímaverkefni eins og bætt lýðheilsa, hreinsun drykkjarvatns, útrýming ójafnréttis og náttúruvernd þjóni meiri tilgangi fyrir ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði í dag fremur en það sem má kalla hefðbundin störf.
„Ef þú vilt eiga góðan möguleika á farsælum starfsframa er mikilvægt að finna verkefni sem erfitt er að leysa. Það mun í fyrsta lagi vera áskorun fyrir þig og í öðru lagi mun það gefa þér tilgang,“ segir hún.
Allt það sem aðskilur okkur frá róbótum, svo sem tilfinningagreind og umhyggja, verður mikilvægt á vinnumarkaði framtíðarinnar telur hún. „Ef þú hefur tilgang og einbeitir þér að því verkefni sem þú tekur þér fyrir hendur mun allt ganga upp á endanum,“ bætir hún við.
Dave Cordle sem sérhæfir sig í þroskaþjálfun og uppbyggingu einstaklinga segir að hæfileikinn til að takast á við breytingar sé sá mikilvægasti sem einstaklingar geta haft.
„Það skiptir ekki öllu hvað þú lærir í háskóla eða hvað lærlingsstarf þú færð heldur miklu frekar hver þú ert sem einstaklingur. Gagnrýnin hugsun og hæfileikinn til að leysa vandamál munu hjálpa þér að standa öðrum framar,“ segir hann og bætir við:
„Við verðum að tileinka okkur tækninýjungar og nota þær sem verkfæri í stað þess að vera hrædd við þær og þær breytingar sem þeim fylgja.“
Denise Taylor sálfræðingur og markþjálfi segir mikilvægt að ungt fólk feti brautir sem haldi framtíðarmöguleikum þeirra opnum frekar en að sérhæfa sig of mikið of fljótt.
„Það sem ég segi alltaf við skjólstæðinga mína er: Fyrst þú ert að fara að vinna þangað til þú nærð níræðisaldri, skiptir þá einhverju máli þótt þú hafir ekki náð öllum þínum markmiðum á þrítugsaldri?“ segir hún.
World Economic Forum tók á síðasta ári saman lista yfir þau störf sem munu koma í auknum mæli fram á sjónarsviðið á næstu árum og þau störf sem munu hafa minna vægi í framtíðinni.
Sérfræðistörfum tengdum hugbúnaði, forritun og greiningu gagna mun fjölga samkvæmt þeirri spá.
Bókhöldurum, launafulltrúum, riturum og verksmiðjufólki mun aftur á móti fækka á næstu árum.