Google þarf ekki að gleyma á heimsvísu

Úrskurður Evrópudómstólsins í málinu tengist deilum á milli Google og …
Úrskurður Evrópudómstólsins í málinu tengist deilum á milli Google og gagnaöryggisstofnunar Frakklands, CNIL. AFP

Evrópudómstóllinn hefur úrskurðað að „rétturinn til að gleymast“ í leitarvélum Google gildi ekki á heimsvísu. Þýðir þetta að tæknirisinn þarf aðeins að fjarlægja leitarniðurstöður sínar í Evrópu, og ekki annars staðar, eftir að beiðni þess efnis hefur borist.

Úrskurður Evrópudómstólsins í málinu tengist deilum á milli Google og gagnaöryggisstofnunar Frakklands, CNIL, sem farið hafði þess á leit að Google fjarlægði hlekki, á heimsvísu, á vefsíður sem innihéldu skaðlegar eða rangar upplýsingar um fólk.

Þetta var árið 2015 og ári síðar kynnti Google aðferð sem gerði því kleift að fjarlægja aðeins hlekki með þeim sem staddir væru í Evrópu, enda næðu lögin aðeins til landa innan heimsálfunnar.

Í kjölfarið fór CNIL fram á 100.000 evra sekt á Google, en málsvörn tæknirisans fólst meðal annars í því að gilti rétturinn til að gleymast utan Evrópu gæti hann verið misnotaður til þess að breiða yfir mannréttindabrot. Google naut meðal annars stuðnings Microsoft, Wikipedia og fjölmiðlafrelsissamtakanna RCFP vegna málsins

Hafa fjarlægt um 1,5 milljónir hlekkja

Google hefur fengið rúmlega 845 þúsund beiðnir um að fjarlægja um 3,3 milljónir vefsíðna af leitarvélum sínum síðan lög þessa efnis voru sett í Evrópu árið 2014. Að sögn tæknirisans hafa hlekkirnir á endanum verið fjarlægðir í um 45% tilfella.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert