Franskur karlmaður, sem lamaðist fyrir neðan háls fyrir fjórum árum eftir að hafa fallið 12 metra af svölum á næturklúbbi, getur nú gengið á ný með fulltingi ytri stoðgrindar sem hann stýrir með heilabylgjum sínum. Þetta vekur vonir um að fleiri með áþekka lömun geti hreyft sig á ný.
Við fallið rofnaði mæna mannsins. Hann heitir Thibault og er 28 ára frá borginni Lyon.
Greint er frá þessu í breska læknablaðinu Lancet og AFP-fréttastofan greinir frá því að læknar hafi þjálfað Thibault í marga mánuði áður en honum tókst að stjórna heilabylgjum sínum á þennan hátt. Þjálfunin fór fram á áþekkan hátt og að hann hefði verið að spila tölvuleik og þurfti hann m.a. að læra ýmsar eðlislægar hreyfingar. Græddur var skynjari við heila Thibaults sem les heilabylgjur hans og sendir þær áfram til stoðgrindarinnar.
Fram að þessu hafa læknar notað ýmiss konar ígræðslur til að auka hreyfigetu lamaðra, en þetta er í fyrsta skiptið sem heilabylgjur eru virkjaðar á þennan hátt. Læknarnir, sem stóðu að hönnun stoðgrindarinnar, vara við því að mörg ár geti verið þangað til tæknin verði aðgengileg almenningi, en leggja áherslu á að tæknin lofaði góðu við að auka hreyfigetu og lífsgæði lamaðs fólks.
Alim-Louis Benabid, prófessor emiritus við háskólann í Grenoble í Frakklandi sem leiddi rannsóknina, segir að þegar mænan skaðist eins og gerðist í tilfelli Thibaults, geti heilinn enn þá sent frá sér skilaboð til lömuðu útlimanna. „En það er þá bara enginn til að framfylgja skilaboðunum lengur,“ segir Benebid.
Sjálfur segir Thibault, að því er fram kemur í frétt AFP, að þessi tækni hafi gefið honum nýtt tækifæri í lífinu. „Ég get ekki farið heim til mín á morgun í stoðgrindinni, en ég er kominn á þann stað að geta gengið. Ég geng þegar ég vil og stoppa þegar ég vil.“