Bandarísku vísindamennirnir William Kaelin og Gregg Semenza og hinn breski Peter Ratcliffe fengu Nóbelsverðlaunin í lífeðlis- og læknisfræði í dag, fyrir rannsóknir sínar á því hvernig frumur nema og aðlagast tiltækileika súrefnis í mannslíkamanum.
Nóbelsnefnd Karólínsku-stofnunarinnar tilkynnti þetta á blaðamannafundi í Stokkhólmi fyrir skemmstu. Í umsögn nefndarinnar segir að þeir Kaelin, Semenza og Ratcliffe hafi með rannsóknum sínum skapað grundvöll fyrir skilning á því hvernig súrefnismettun hafi áhrif á efnaskipti í frumum og lífeðlisfræðilega virkni.
Dómnefndin sagði uppgötvanir þeirra hafa leitt til þess að vinna sé farin af stað við lofandi nýjar leiðir til þess að takast á við blóðleysi, krabbamein og marga aðra sjúkdóma.
Sjá má upptöku af blaðamannafundinum hér að neðan.